„þeim er slátrað sem fara gegn læknafélaginu“

 Læknafélag Íslands hefur skorað á yfirvöld að stöðva án tafar sölu á rafrettum með því fyrirkomulagi sem nú er, því þær séu hættulegar.

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum í Svíþjóð sagðist í viðtali við Lindu Blöndal á Hringbraut í þættinum 21 í gær vera þeim fullkomlega ósammála. Ekkert hefði verið sannað um skaðsemina. Hart er deilt um þetta en Læknafélagið segir Guðmund Karl vera einn af örfáum til að segja rafrettur skaðlausar.

„Þetta er eins langt frá sígarettum og hugsast getur“, segir Guðmundur Karl. Um sé að ræða lyf sem hjálpar fólki og hinsvegar eitur sígarettnanna sem drepur fólk. Hann segir að nikótínið sjálf ekki hættulegra en til dæmis koffín heldur sé það reykurinn sem drepi.

 Mikil reynsla

Guðmundur segir að komin sé fimmtán ára reynslu af veipi, fleiri þúsund rannsóknir og yfir fjörtíu milljónir notenda „það er komin meiri reynsla á þetta en nokkurt lyf sem er markaðssett“. Enn hafi ekki verið sýnt fram á með nokkurri rannsókn að veip valdi skaða á heilsu fólks. Á sama tíma hafi milljónir manns hætt að reykja með hjálp veips.

 Spurður út í hættuna á að ungmenni ánetjist nikótíni vegna notkunar á veipi benti Guðmundur Karl á að samkvæmt rannsóknum Rannsókna og greiningar sem gerðar eru árlega í skólum á Íslandi hafi komið fram að um 65 prósent af þeim sem veipi reglulega hafi áður annað hvort reykt eða notað munntóbak. Því sé sáralítil nýliðun nikótínnotenda í þeim hópi.

 „Læknafélag Bretlands er á sömu skoðun og ég“ segir Guðmundur Karl. „Það eru margir [læknar] sammála mér. Þeir sem fara gegn straumnum í þessum efnum er nánast slátrað“.

Nikótín sannað sem eiturefni

 Lára G. Sigurðardóttir læknir og lýðheilsufræðingur segir nikó­tín ekki skaðlaust heldur sterkt ávana­bind­andi eit­ur­efni og þannig flokkað hjá Um­hverf­is­stofn­un.. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafi rannsakað bragðefnin og komist að því að mörg innihaldi formaldehýð sem er þekkt krabbameinsvaldandi efni. Lára segir að fóst­ur móður sem neyt­ir nikó­tíns í ein­hverju formi á meðgöngu geti orðið fyr­ir var­an­legri þroska­skerðingu. Eng­in merki séu um að rafsíga­rett­ur teng­ist lækk­un á tíðni dag­legra reyk­inga.

 Hún hefur einnig bent á að nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sem sýni að táningar sem hafa notað rafrettur eru líklegri en aðrir til að verða reykingamenn.  Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur rannsakað bragðefnin og komist að því að sum innihalda formaldehýð sem er þekkt krabbameinsvaldandi efni.

Í þættinum 21 á Hringbraut verður á næstunni fjallað meira um málið.