Þegar silfrið varð að brotajárni

Athafbamaðurinn Ole Anton Bieltvedt leggur þetta til mála í nýjasta tilskrifi sínu: \"Í Silfrinu á RÚV 11. febrúar sl. mætti til viðtals, væntanalega í vinsamlegu boði Egils stjórnanda, embættislaus og umboðslaus grízk stjórnmálakona, Zoe Konstantopoulou.

Sagt er, að Ögmundur Jónasson, sá ágæti maður, hafi beitt sér fyrir komu konunnar til landsins, og er erfitt að skilja, hvað hafi vakað fyrir honum með boðinu. Auðvitað ná menn ekki alltaf áttum.

Það er oft áhugavert, að kynnast nýju fólki, fá nýjar upplýsingar, hlusta á önnur sjónarmið; víkka sjóndeildarhringinn. Í þessu tilviki sýndi það sig þó, að undantekningin sannar regluna. Það liggur við, að ég segi, að í þessu viðtali hafi bullið og ruglið flætt yfir bakkana.

Egill reyndi að lauma inn orði, svona inn á milli, spurningum, eins og vera bera hjá góðum stjórnanda, og voru sumar góðar, en þær drukknuðu meira og minna í orðaflaumi valkyrjunnar, sem í raun svaraði engri þeirra, nema með gagnspurningum eða ógrunduðum fullyrðingum, sem margar voru ævintýralegar og hreinlega út í hött. Þandi hún mikinn barminn í leiðinni, og virtist það draga mátt úr Agli, sem ekki viðist vera af ætt nafna síns Skallagrímssonar.

Áhugasömum er bent á, að þetta makalausa viðtal er enn hægt að sjá á Sarpinum á RÚV.

Annar merkismaður, Björn Bjarnason, auðvitað ekki gallalaus, frekar en Ögmundur og við hinir, skrifaði svo langa grein um þessa valkyrju og Grikkland í Moggann 9. febrúar.

Fyrirsögnin er „Skuldafjötrar hvíla enn á Grikkjum“. Virðist Björn undrandi á þessari stöðu Grikkja, þó að hann ætti að vita, að Grikkir séu skuldsettasta þjóð Evrópu, ef ekki alheimsins, enda lifðu þeir lengi vel langt um efni fram.

Ég fylgdist grannt með Grikklandsvandamálinu, það var eitt heitasta málið í Þýzkalandi, þar sem ég bjó, meðan á björgunarátökum stóð.

Grikkir urðu meðlimir ESB 1981 og sóttu það fast að fá Evruna, eins og margar Evrópuþjóðir aðrar, þegar hún kom 1999. Vildu menn auðvitað komast í það aukna öryggi og þann stöðugleika, sem Evran veitir.

Skilyrðin fyrir heimild til upptöku Evrunnar skv. Maastricht samkomulaginu voru ströng. T.a.m. mátti í mesta lagi vera 3% halli á ríkisrekstri umsóknarþjóðar.

Á árabilinu 1997 til 1999, en umsókn Grikkja byggðist á þessu árabili, gáfu þeir upp 4% halla fyrir 1997, 2,5% halla fyrir 1998 og 1,8% fyrir 1999. Þótti þetta flott þróun og fínar tölur, og gekk Evru-umsóknin fljótt og vel eftir.

2004 urðu stjórnarskipti í Grikklandi. Ný ríkisstjórn fór þá ofan í útreikninga fyrri ríkisstjórnar. Kom í ljós, að réttar tölur um halla á ríkisrekstri voru 6.4% fyrir 1997, 4.1% fyrir 1998 og 3.4% fyrir 1999. M.ö.o. Grikkir hefðu aldrei átt að fá heimild til að taka upp Evruna! Við bættist, að 2003 var hallinn 4.6% og 2004 5.3%. Voru Grikkir þarna búnir að eyða langt um efni fram og brjóta alla aðildarskilmála Evru í bak og fyrir.

Í Maastricht samkomulaginu var ekki gert ráð fyrir, að nein aðildarþjóð myndi beita blekkingum við umsókn um Evruaðild, og lágu því engin viðurkvæði fyrir við brotinu. Eins var komin ný stjórn, sem hafði upplýst um misferlið og lofað bót og betrun.

ESB vildi því leysa málið með vinsemd og samvinnu, enda um ESB systurþjóð að ræð, en auðvitað átti þetta misferli, ásamt með ýmsu öðru skrýtnu athæfi, vafasömum kerfum og útbreiddri spillingu í Grikklandi, eftir að vinda upp á sig.

Magnaðist skuldavandi Grikkja þannig árin þar á eftir og kúlmíneraði svo í banka- og fjármálakreppunni 2008/2009. Fór þá þjóðin nánast í þjóðargjaldþrot, en metnaður Merkel og ESB var að bjarga Grikkjum, sem Evrópuþjóð og vöggu lýðræðisins, frá hruni og fári, eftir því, sem hægt væri.

Eftir harða baráttu síðustu 6-8 árin, og með aðhaldi og hjálp ESB, Evrópska Seðlabankans og Alþjóða gjaldeyrisvarasjóðsins, er Grikkland nú, sem betur fer, að ná sér á strik. Í fyrra mun verg þjóðarframleiðsla hafa aukist um 2.1%, og var ríkisreksturinn jákvæður um 2,2%. Gleðilegt að sjá þetta. Í ár er reiknað með verulegum frekari framförum.

Um valkyrjuna skal þetta sagt. Hún sat á þingi fyrir SYRIZA frá 2012 til 2015, og var hún forseti þingsins, fyrir tilstilli Alexis Tsipras, frá febrúar fram í ágúst 2015. Þá lenti hún í útistöðum við Tsipras – eins og svo marga aðra - og datt úr af þingi.

 Í apríl 2016 stofnaði hún nýjan flokk, „Leiðin til frelsisins“ („Course of Freedom“). Af 300 þingmönnum á gríska þinginu hefur þessi flokkur engan. Grikkir eru með 21 þingmann á Evrópuþinginu, en einning þar er flokkurinn á núllinu. Skoðanakönnun haustið 2016 sýndi að flokkurinn var með 2-3% fylgi. Valkyrjan nýtur því meiri hylli hér, en í heimalandi sínu.

Að lokum stutt saga um valkyrjuna, eða móður hennar öllu heldur, og kerfin í Grikklandi. 2014 kom í ljós, að móðirin hafði fengið barnabætur fyrir dóttur sín, Zoe, valkyrjuna, fram í nóðvember 2013. Þar sem valkyrjan er fædd í desember 1976, og var að verða 37 ára gömul, var þetta auðvitað full langt. Móðirin húðskammaði svo barnabótasjóðinn fyrir „mistökin“. Um endurgreiðslu hefur ekkert heyrzt. Skrýtnar sögur, sem tengjast Zoe Konstantopoulou, eru fleiri.\"