„þá gátu þau örugglega heyrt mig gráta þegar mamma sló mig“

Ofbeldi er helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Þetta kemur fram í nýjum gögnum um ofbeldi gegn börnum á Íslandi sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kynnir í dag.

UNICEF fékk senda í aðdraganda átaksins sendar raunverulegar frásagnir þolenda.. Frásagnirnar eiga það sameiginlegt að þolendur voru börn og gerendur nákomnir þeim. Átakinu fylgir ákall til almennings um að ganga í breiðfylkingu fólks sem tekur afstöðu gegn ofbeldi á börnum. Hægt er að skrifa undir ákallið hér.

Hér fyrir neðan fylgir ein þeirra:

„Þegar ég var lítil bjó ég í blokk. Amma vinkonu minnar bjó á hæðinni fyrir neðan okkur. Ég fór oft þangað til að leika við vinkonu mína þegar hún var í pössun hjá ömmu sinni. Þegar ég var þar, heyrði ég hversu hljóðbært var milli íbúða í blokkinni, ég gat heyrt ég hlátur, tal og hljóð úr sjónvarpinu sem barst frá íbúðinni sem ég bjó í.

Ef hinar íbúðirnar í blokkinni gátu heyrt í sjónvarpinu úr minni íbúð, þá gátu þau örugglega heyrt mig gráta þegar mamma sló mig. Þau gátu örugglega heyrt þegar hún öskraði á mig. Þau gátu örugglega heyrt hvað ég grét og var hrædd þetta skipti sem hún sparkaði í mig aftur og aftur á ganginum í sameigninni.

Ég bjó í þessari blokk frá því að ég fæddist og þar til ég flutti að heiman. Ég þekkti alla nágrannana, lék mér við börnin þeirra og var send til þeirra til að fá lánaða mjólk.

Ég vildi óska að einhver hefði spurt mig hvernig mér liði, hvort allt væri í lagi eða athugaði með mig, en það gerðist aldrei.

Ég vildi óska að einhver hefði hringt í lögregluna eða barnavernd, en það gerðist aldrei.“