Þarf að greiða fyrir uppgröft á eigin lóð

Minjastofnun krafðist þess að Hjörleifur Hallgríms Herbertsson, eigandi lóðarinnar Aðalstrætis 12b á Akureyri, greiddi fyrir uppgröft á eigin lóð og gengi úr skugga um að engar fornleifar fyndust þar áður en hann hæfi jarðvegsframkvæmdir á lóðinni. RÚV greinir frá.

Hjörleifur hafði ætlað að byggja sér íbúðarhús á lóðinni. Í tilkynningu frá Minjastofnun sem birtist á Facebook-síðu stofnunarinnar segir að Hjörleifi hafi verið bent á að sækja um styrki fyrir framkvæmdunum.

Í samtali við Fréttablaðið sagðist Hjörleifur ekki hafa fé til verksins og því sitji hann nú uppi með verðlausa lóð sem hann geti ekki losað sig við. 

Í lögum um menningarminjar segir að ekki megi raska jarðföstum mannvistarleifum hundrað ára og eldri sem eru friðaðar, nema með leyfi Minjastofnunar. Þar að auki á að kanna lóðir elstu hluta þéttbýla á Íslandi þar sem vitað er að eldri hús stóðu.

Vegna þessa og sögu umræddrar lóðar við Aðalstræti krafðist Minjastofnun þess að það yrði kannað hvort eldri minjar leyndust á lóðinni með því að opna könnunarskurði og grafa á lóðinni. 

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, segir í samtali við RÚV að samkvæmt lögum eigi þeir sem ætli í framkvæmdir að greiða fyrir uppgröftinn. Hún segir að í þessu tilviki ætti vinnan við uppgröftinn ekki að taka langan tíma, um einn til tvo daga. Komi hins vegar í ljós eldri minjar þurfi að fara í frekari rannsóknir. Framkvæmdirnar ættu ekki að vera mjög kostnaðarsamar.

Umfjöllun RÚV um málið í heild má nálgast hér.

Fréttir úr öðrum miðlum:

Þarf að greiða fyrir uppgröft á eigin lóð