„þarf að gera þetta hratt“

„Staðan er ágæt eftir fréttir dagsins. Skuldabréfaeigendur voru að samþykkja það að breyta kröfum sínum í hlutafé sem styrkir félagið verulega. Eins og hefur komið fram þá erum við jafnframt að fara í hlutafjáraukningu og sú vinna er í fullum gangi með okkar ráðgjöfum. Við höfum fengið ágætis móttökur það sem af er,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air í samtali við RÚV.is.

Skúli segir WOW nú vinna að því að tryggja langtímafjármögnun flugfélagsins. „Við erum að vinna með öllum aðilum, kröfuhöfum og stjórnvöldum í að tryggja langtímafjármögnun félagsins. Þeirri vinnu miðar vel áfram. Við erum að vinna þetta mjög hratt og það að ná þessum kröfuhöfum saman á þetta skömmum tíma, á nokkrum dögum, er stór og mjög jákvæður áfangi.“

Hann segir að líklega hefði verið skynsamlegast að reyna að fá skuldabréfaeigendur til þess að breyta skuldum sínum í hlutafé fyrr. „Stundum eru hlutirnir þannig að þeir þurfa að vera komnir í ákveðinn farveg til þess að það sé hreinlega hægt að taka fast á málum og núna var staða félagsins orðin mjög þröng, og er mjög þröng, það liggur alveg fyrir og þar af leiðandi þurfum við að vinna hratt. Það er öllum ljóst að það þarf að gera þetta hratt. Þannig að kannski núna eru aðstæður þannig að þetta er orðið gerlegt.“

Með þessari breytingu er Skúli ekki lengur eini eigandi WOW air og því ekki í hans höndum að ákveða hvort hann verði áfram forstjóri félagsins. Hann mun þó áfram eiga stóran hlut í því og verður forstjóri þar til eða ef nýir eigendur taka ákvörðun um annað. „Ég hef mjög gaman af því sem ég er að gera og hef fulla trú á félaginu. Augljóslega verður það í höndum nýrra eigenda, ég verð áfram hluthafi en einn af mörgum, og ég tel það styrk fyrir félagið að fá marga hluthafa að félaginu. Það verður í þeirra höndum að ákveða framhaldið.“