Hagfræðiprófessor skilur ekki verðskrár bankanna

 „Til þess að samkeppni virki þá þarf að fullnægja nokkrum skilyrðum. Það þurfa að vera margir seljendur, margir bankar. Upplýsingarnar þurfa að vera á hreinu, maður þarf að vita hvaða verð maður er að greiða. Svo ég fór inn á heimasíðu eins bankans og finn verðskrána sem er átta blaðsíður. Það er dálítið mál að kynna sér þessi verð og enn meira mál að muna þessi verð og enn meira mál að bera þau saman á milli banka,” segir Gylfi Zoëga, prófessor í Hagfræði.

Gylfi Zoëga, prófessor í Hagfræði, var gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut á mánudag. Gylfi hélt erindi á fundi Fjármálaeftirlitsins um samkeppni á fjármálamarkaði í síðustu viku þar sem hann ræddi m.a. verðskrár viðskiptabankanna þriggja; Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka.

Þrátt fyrir að Gylfi sé hagfræðiprófessor segir hann það vera talsvert mál fyrir sig að bera saman þessar verðskrár: „Það væri dálítið mál. Ég þyrfti að búa til Excel skjal fyrir bankanna, átta blaðsíður af línum og gera svo tölfræðilega greiningu á þessum Excel skjölum til þess að finna muninn.“

Hann segir verðmyndunina ógegnsæja og að þörf sé á eftirliti með henni til að koma í veg fyrir verðsamráð. „Nú vitum við ekki hvernig þessi verð eru ákvörðuð. Það þarf allavega að lágmarki að fylgjast með verðmyndun á öllum þessum gjöldum hérna. Hver er kostnaðurinn? Eins og með debetkort, hvað kostar það bankanna að nota debetkort? Hvað kostar þá að leggja á þau og allt annað hérna. Það þarf einhver að fylgjast með því við getum ekki fylgst með. Það er Samkeppniseftirlitið sem ætti að vera þarna, þeir hafa eitthvað litið á þessi mál. Ég held að það þurfi að lágmarki öflugt Samkeppniseftirlit til að ná utan um þessa verðmyndun, af því að hún er það ógegnsæ,“ segir Gylfi.

Viðtalið við Gylfa í heild sinni er að finna hér: