Telma svanbjörg: „ég sá ekkert annað í stöðunni en að fyrirfara mér“

Telma Svanbjörg Gylfadóttir fékk sitt fyrsta ofsakvíðakast árið 2015 og var í kjölfarið lögð inn á geðdeild. Á sama tíma var hún að byrja í átröskunarmeðferð og fékk loksins réttar greiningar á geði sínu.

„Þunglyndi, ofsakvíði og átröskun. Um tíma var ég mikið inn á geðdeild og nokkru sinnum nauðungavistuð og sprautuð niður,“ segir Telma í viðtali við Hringbraut.

Gekk á vegg 

Í tvö ár var Telma send inn og út af geðdeild en árið 2017 var ákveðið að senda hana í endurhæfingu á Kleppsspítala og segir hún það hafa hjálpað henni mikið við að ná góðri heilsu. Þegar það átti að útskrifa hana af spítalanum tók hún það ítrekað fram að hún vildi ekki útskrifast fyrr en hún væri komin í teymi með geðlækni og sálfræðing.

„Ég fékk hvorugt, ég er bara með heimilislækni og tvo hjúkrunarfræðinga sem ég er í raun í engu sambandi við. Ég hef ekki náð því trúnaðar sambandi við minn heimilislækni sem ég var búin að ná við starfsfólkið á Kleppi. Ég útskrifaðist í byrjun júní á þessu ári. Fyrst gekk mér vel og ég hélt að ég væri komin í 100% bata. Byrjaði í yndislegri vinnu í 90% starfi og það gekk í um það bil þrjár vikur en svo var eins og ég hefði labbað á vegg og ég þurfti að hætta að vinna.“

Þá tók við erfiður tími hjá Telmu og kvíðaköst hennar urðu regluleg og oft mörgum sinnum á dag.

„Ég reyndi ítrekað að fá innlögn inn á geðdeild en því var alltaf neitað. Í fyrra var ég látin skrifa undir samning um að ég eigi einungis rétt á hvíldarinnlögnum í gegnum deildarstjóra. Ég tel í dag að ég hafi ekki fengið tíma til að hugsa um þennan samning heldur var sett pressa um að ég þyrfti að skrifa undir strax.“

Eftir að Telma útskrifaðist af Kleppi hefur hún farið í tvær hvíldarinnlagnir og síðasta innlögn var um síðustu helgi.

„Ég bað um að fá að ræða við lækni þar sem ég tek lyf til þess að sofna. Það var ekki samþykkt á föstudeginum að ég fengi tvær róandi töflur heldur bara eina en þau gáfust upp um sirka hálf tólf og fékk ég þá auka töflu og gat sofið. Daginn eftir eða á laugardeginum óska ég svo eftir því að fá að ræða við lækni til að fá samþykktar þessar tvær töflur. Ég beið eftir lækni allan daginn og allt kvöldið. Hjúkkan á kvöldvaktinni sagði að læknirinn kæmi klukkan 21:00 og klukkan 22:00 var ég orðin ansi pirruð á þessari bið en hjúkkan sem var á vakt og var með mig var gjörsamlega yndisleg hún hringdi í lækninn og heimtaði að ég fengi tvær töflur svo ég geti sofið.“

Ítrekaðar sjálfsvígshugsanir

Morguninn eftir segir Telmu sömu vitleysuna hafa byrjað aftur. Hún hafi beðið um að fá að hitta lækni klukkan tíu og þegar klukkan var orðin þrjú var hún orðin mjög þreytt á biðinni. 

„Ég átti erfitt með að standa upp og ég var með kúlu á vinstri hliðinni. Ég var mjög verkjuð og þegar læknirinn kom loksins sagðist hún augljóslega sjá bólgu. Hins vegar sagði hún við starfsfólkið að það væri ekkert að sjá. Svo kemur mánudagsmorgun og þá er ég útskrifuð og ég fékk ekkert útskriftar viðtal við lækni sem ætti að vera vani hjá öllum þó svo þú sért bara í hvíldarinnlögn.“

Um kvöldið á mánudeginum fer Telma að finna fyrir gömlum hugsunum sem henni líkar ekki við. Sjálfsvígshugsanir.

„Þriðjudagsmorgun heldur sagan áfram og ég er með ítrekaðar sjálfsvígshugsanir. Ég fer inn á geðdeild með pabba og tala þar við konu en mér er neitað innlögn út af þessum samningi. Miðvikudaginn 9. október brotna ég. Ég sá ekkert annað í stöðunni en að fyrirfara mér. Ég var með tilbúið lak og búin að safna töflum saman í lófann þegar pabbi og mamma kíkja á mig. Pabbi fór með mig niður á bráðamóttöku geðsviðs. Það var mikið af fólki og löng bið. Loksins þegar kom að okkur tók á móti mér læknir sem var mjög kaldur og var hann í raun bara búin að ákveða að ég yrði send heim. Vanalega get ég séð um það að tala en þarna var það ekki séns. Ég kom upp úr mér nokkrum orðum en pabbi sá eiginlega alfarið um að tala og sagði að ástandið væri svo slæmt að ég væri vöktuð af heimilisfólki. Hann fer fram og talar við sérfræðilækni á vakt. Þrátt fyrir lýsingar pabba sem sagði að ekki væri hægt að hafa mig svona heima þá var mér samt vísað heim.“

Telma útskýrir að bæði hún og pabbi hennar hafi fundið fyrir því að hún hafi ekki verið velkomin á geðdeildinni. Þá segist hún hafa tekið ákvörðun um að þangað vildi hún ekki fara aftur, sama hvað.

„Þegar við löbbum fram sjáum við móðir þarna með stelpuna sína. Henni var einnig vísað frá og var brjáluð. Ég hef líka orðið vitni að því að það er talað við fólkið frammi á gangi þar sem öll biðstöfan heyrir. Ég hef verið vitni að því að fíklum sé vísað frá og ég hef heyrt svo ótal margar sögur frá fólki sem er hreinlega neitað um aðstoð. Fólkið er að koma þangað í neyð og það finnst engum gaman að óska eftir innlögn á geðdeild. Þetta er notað sem algjört neyðarúrræði og er fólki eins og mér í sjálfsvígshættu vísað á dyr. Það er fólk að fyrirfara sér í hverjum mánuði, fíklar að taka of stóra skammta, fólk sem hefur leitað eftir hjálp daginn áður inn á geðdeild og svipt sig svo lífi daginn eftir. Alvarlega veiku fólki er neytuð þjónusta þegar það er á sínum versta stað.“

Telma veltir því fyrir sér hvað gangi eiginlega á á geðdeildinni.

„Er það mannekla eða eru launin ekki nógu svo þau nenni að sinna sínu starfi almennilega? Hvað þarf mörg dauðsföll í viðbót svo gripið sé til aðgerða? Það þarf að setja meira fjármagn, það þarf að hafa almennilegt starfsfólk á deildum og bráðaþjónustunni, það þarf að taka inn fólk og aðstoða þau þegar þau eru á sínum versta stað. Það þarf að finna úrræði, það þarf að minnka biðtíma í úrræðin. Vitið þið hvað það er langur tími til þess að komast að hjá geðlækni í dag á Íslandi? Það eru frá fimm mánuðum upp í nokkur ár og svo eru sumir hættir að taka við nýjum skjólstæðingum. Bið í ADHD greiningu á geðsviði Landspítalans er yfir eitt ár og biðtími í átröskunarmeðferð eru níu mánuðir. Það þarf að fara í aðgerðir til að stytta þessa bið. Stjórnvöld þurfa að vakna og sjá hversu alvarlegt ástandið er. Myndi ykkur finnast eðlilegt ef sjúklingur sem fótbrotnaði þyrfti að senda tölvupóst á deildarstjóra og bíða jafnvel í tvær vikur eftir aðstoð? Það yrði allt brjálað.“

\"\"

Telma Svanbjörg hefur ítrekað verið neitað um innlögn á geðdeild / Mynd: Aðsend

Hefði aldrei skrifað undir í andlegu jafnvægi

Telma segist vilja deila sinni sögu til þess að opna augu fólks og vonast hún til þess að ná til stjórnvalda með því að tala hreint og beint úr.

„Ef ég hefði fengið tíma til þess að ákveða hvort ég vildi skrifa undir þennan hvíldarinnlagna samning og kannað hvernig fólk hefur upplifað hann og ef ég hefði fengið að vera í andlega góðu jafnvægi þá hefði ég aldrei skrifað undir þennan samning. Ef ég hefði vitað að ég þyrfti stundum að bíða í tvær vikur eftir innlögn og fengið bara í mesta lagi þrjá daga og ekki einu sinni útskriftarviðtal við lækni þá hefði ég aldrei samþykkt þennan samning.“

Telma er um þessar mundir að byrja í reglulegum viðtölum við sálfræðing sem hjálpar henni að vinna úr erfiðri eineltisreynslu sem Telma varð fyrir í grunnskóla.

„Ég fæ einungis örorkubætur sem eru 208.000 krónur á mánuði frá TR og hver sálfræði tími kostar 16.500 krónur. Ég hef ég ekki fundið neinn stað sem niðurgreiðir tímana hvorki TR, Sjúkratryggingar né félagsþjónustan en þau vilja meina að ég sé með of háar tekjur.“

Telma vonast til þess að allir þeir sem leiti sér aðstoðar á erfiðum tímum fái hana.

„Það þarf kannski ekki alltaf að grípa til innlagnar en til dæmis að bjóða fólki að koma í regluleg viðtöl og finna viðeigandi úrræði sem hentar hverjum og einum. Ég vil líka taka fram að það er alveg gott starfsfólk inn á milli á geðsviðinu en þarna er líka fólk sem ég skil ekki alveg hvað er að gera þarna. Ég er núna að upplifa það að þau nenni mér ekki lengur. Ég óskaði eftir því að fá stuðningsinnlögn á deild 33C sem sérhæfir sig í meðferð við átröskun en því var hafnað af yfirlækni deildarinnar. Ég er sjálf að reyna koma mér upp úr þessari dýfu sem ég er komin í ég ætla gera það með því að einblína á áhugamálin mín og byggja upp trúnað aftur við fjölskyldumeðlimi. Ef ég fengi að ráða öllu í einn dag þá yrði starfsfólk deildarinnar endurskoðað, meira fjármagn væri veitt, hærri laun, álag á starfsfólkið minnkað, minnka biðlista, fleiri úrræði, ég gæti talið endalaust.\" Segir Telma. 

„Við þurfum að standa saman og berjast fyrir betra geðheilbrigðiskerfi. Ef þú þekkir einhvern sem er að glíma við andleg veikindi, vertu til staðar, þú veist aldrei hvað einstaklingurinn við hliðina á þér er að ganga í gegnum.“