Telja skerta meðvitund ökumanns líklegustu ástæðuna fyrir hafnarslysinu á árskógssandi

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslysið við höfnina á Árskógssandi þann 3. nóvember árið 2017 kemur fram að líklegasta orsökin fyrir slysinu hafi verið sú að ökumaður hafi ekki stöðvað bifreið sína, sennilega vegna þess að hann var með skerta meðvitund af óþekktum orsökum. Auk þess hafi bryggjukantur verið lágur og varnarbúnaður ekki nægilegur til að koma í veg fyrir að keyrt væri út af bryggjusporðinum.

Í slysinu lést pólsk fjölskylda; 36 ára karl, 32 ára kona og 5 ára stúlkubarn þeirra. Hafði fjölskyldan verið búsett í Hrísey til nokkurra ára.

Í lýsingu á slysinu segir í skýrslunni að bifreiðinni hafi verið ekið eftir bryggjunni út á enda þar sem hún svo fór yfir bryggjukantinn, endastakkst í sjóinn og lenti þar líklega að hluta til á toppnum. Bifreiðin réttist síðan við og flaut í stutta stund þannig að hana rak nokkuð frá bryggjunni áður en hún sökk í höfninni.

Aðstæður voru erfiðar og veður slæmt, með SA 4–8 m/s, slydduhríð og um -3°C frosti. Snjór var á bryggjunni og hálka var að byrja að myndast þegar slysið átti sér stað.

Vitni á staðnum lýstu því að bifreiðinni hefði verið ekið án áberandi hraðabreytinga beint út bryggjuna. Ekki hafi kviknað á hemlaljósunum áður en bifreiðin fór fram af bryggjunni og hemlaför voru ekki greinanleg eftir bifreiðina.

„Ekki var óvenjulegt að ökumenn ækju út á bryggjuna að landganginum við ferjuna þegar til stóð að afferma bifreiðar eða hleypa út farþegum áður en lagt var í bifreiðastæði skammt frá bryggjunni. Þar sem tveir farþegar voru í bifreiðinni og farmur er sennilegt að ökumaður hafi ekið inn á bryggjuna í þeim tilgangi,“ segir í skýrslunni.

Þá er greint frá því að fjölskyldan hafi ekki komist út úr bifreiðinni. Aðili á vettvangi hafi farið í sjóinn í flotbúningi en gat ekki náð til fólksins. Aðstæður á vettvangi voru með þeim hætti að þeir sem þar voru staddir áttu að mati nefndarinnar sennilega enga möguleika á að koma fólkinu til bjargar.

Hiti sjávar, dýpt þar sem bifreiðin stöðvaðist á sjávarbotni og lítið skyggni neðansjávar kröfðust björgunaraðgerða þjálfaðra björgunarmanna með viðeigandi búnaði. Kafarar komu á vettvang um klukkustund eftir að bifreiðin fór í sjóinn og náðu ökumanni og farþegum út úr bifreiðinni. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og voru þau öll úrskurðuð látin á sjúkrahúsi.

Erfitt að útskýra nákvæmar orsakir slyssins

Í skýrslunni er greint frá því að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki verið undir áhrifum áfengis eða lyfja, niðurstöður áfengis- og lyfjarannsókna á honum hafi reynst neikvæðar. Ökumaðurinn hafi auk þess verið heilsuhraustur og engar upplýsingar væri að finna í heilsufarssögu hans eða niðurstöðum rannsókna í kjölfar slyssins sem gætu skýrt orsakir slyssins.

„Þrátt fyrir að ekki hafi komið fram afgerandi merki sem sýndu fram á meðvitundarleysi eða veikindi sem gætu hafa orsakað slysið útilokar það ekki skyndileg veikindi hjá ökumanni þegar slysið varð að mati sérfróðra. Samkvæmt sérfræðingi í réttarmeinalæknisfræði geta annars heilbrigðir einstaklingar fengið flogaköst eða önnur skyndileg veikindi án þess að þau skilji eftir sig ummerki sem hægt er að greina í krufningu,“ segir einnig í skýrslunni.

Í viðtölum lögreglu við ættingja og vini hafi auk þess ekkert komið fram um persónulega hagi ökumanns eða farþega sem gæti varpað ljósi á orsakir slyssins.

Þegar bifreiðin, af gerðinni Hyundai Santa Fe, nýskráð árið 2006, var skoðuð kom heldur ekkert athugavert í ljós. Bremsuljós virkuðu eðlilega og ekkert kom fram sem benti til þess að hemlar bifreiðarinnar hafi verið í ólagi. Bifreiðin var búin negldum vetrardekkjum með viðunandi mynstursdýpt og hæð undir bifreiðina er um 20 cm.

Þá er ekki talið að hraði bifreiðarinnar hafi verið mikill þegar henni var ekið inn á bryggjuna.

Því kemst rannsóknarnefndin að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til annars en að um slys hafi verið að ræða.

Bryggjukantur hækkaður og steyptir pollar við bryggjusporð

Bryggjukanturinn þar sem bifreiðin fór út af bryggjunni var um 15 cm hár. Kröfur í núgildandi reglugerð um hafnarmál nr. 326/2004 eru að hafnarkantur sé a.m.k. 20 cm hár. Þegar bryggjan var byggð árið 1987 voru ekki gerðar kröfur um hæð á bryggjuköntum.

Fjórir bryggjupollar voru á bryggjuendanum þar sem bifreiðin fór út af bryggjunni en bifreiðin komst með auðveldum hætti á milli tveggja þeirra. Eftir slysið sendi rannsóknarnefndin Dalvíkurbyggð bréf þar sem óskað var eftir að úrbætur yrðu gerðar á hafnarkantinum. Brugðist var við og settir upp steyptir pollar við bryggjusporðinn.

Í skýrslunni kemur fram að nýlega hafi hafnarsjóður Dalvíkurbyggðar látið hækka bryggjukantinn upp í 22 cm. Kanturinn er því í dag umfram kröfur í reglugerð, auk þess sem steyptir pollar verða áfram við bryggjusporðinn.

Rannsóknarnefndin beinir að lokum þeirri tillögu í öryggisátt til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglugerð um slysavarnir og öryggisbúnað í höfnum nr 580/2017 til að tryggja frekar öryggi vegfarenda á hafnarsvæðum og sérstaklega á stöðum þar sem almenningur á erindi.