Telja líklegt að úði frá háþrýstiþvotti hafi valdið e. coli smitinu í efstadal

Matvælastofnun telur líklegt að ein af smitleiðum E. coli smitsins, sem greindist í Efstadal II í júlí og olli smitfaraldri, hafi verið háþrýstiþvottur á umhverfi nautgripa. Stofnunin vekur athygli bænda og annarra framleiðenda á því að úði frá háþrýstiþvotti á smituðu umhverfi geti dreift smitefnum og valdið sjúkdómi í dýrum og mönnum.

Alls smituðust 22 einstaklingar, þar af 20 börn og tveir fullorðnir, eftir að hafa heimsótt vinsælan ferðamannastað að Efstadal II. Í dag er ekkert barn inniliggjandi á spítala vegna E. coli smits og ekkert nýtt tilfelli hefur greinst síðan 19. júlí. Því telur embætti landlæknis að faraldrinum sé lokið.

Í tilkynningu frá MAST segir að hér á landi og víðar sé hefð fyrir því að nota háþrýstiþvott í landbúnaði. Í úðanum sem myndast við háþrýstiþvott geta verið sveppir, bakteríur, veirur, sníkjudýr eða önnur smitefni sem berast auðveldlega í fólk og dýr, t.d. með því að anda úðanum að sér. Auk þess leggst úðinn á yfirborðsfleti og mengar þá. Smit getur þá orðið við snertingu.

Stofnunin bendir á að lágþrýstiþvottur hafi kosti umfram háþrýstiþvott að því leiti að ekki myndist úði og þá dreifist óhreinindi ekki eins mikið. Þannig sé lágþrýstiþvottur betri kostur til þvotta í landbúnaði.

„Í landbúnaði eru óhjákvæmilega smitefni og ætíð ætti að gera ráð fyrir að smitefni geti verið hættuleg heilsu manna og dýra. Í öllu falli ætti ekki að nota háþrýstiþvott þar sem nálægð er mikil milli dýra og manna og/eða matvæla, því úðinn fer víða. Aldrei skal þvo gripahús með háþrýstingi þegar dýr eru inni og nota skal grímur til að verjast úðasmiti,“ segir einnig í tilkynningunni.

MAST beinir þeim tilmælum til fólks í landbúnaði að gera sér grein fyrir þessu og endurskoða starfsvenjur sínar þannig að komið verði í veg fyrir óþarfa dreifingu smits. Það sama geti átt við í matvælaiðnaði.