Telja ekki tilefni til afsökunarbeiðni

Helgi Seljan Jóhannsson, dagskrárgerðarmaður á RÚV og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri telja ekki tilefni til að biðja hjónin Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndísi Schram afsökunar vegna umfjöllunar um ásakanir um kynferðislega áreitni af hálfu Jóns Baldvins. Helgi segir Jón Baldvin þann eina sem halli réttu máli í málflutningi sínum og Magnús Geir segir fréttagildi viðtals við Aldísi Schram, dóttur hjónanna, hafa verið ótvírætt. Fréttablaðið.is greinir frá.

„Það er alveg sama hversu marga dálksentimetra Jón Baldvin Hannibalsson tekur undir þessar greinar sínar og hversu oft hann birtir þær, það er bara einn maður sem hefur orðið uppvís að því að halla réttu máli í sínum málflutningi vegna þessa alls og það ítrekað. Kennitalan hans er í Mogganum í dag, er mér sagt,“ segir Helgi í samtali við Fréttablaðið og vísar til aðsendrar greinar hjónanna í Morgunblaðinu í gær.

Í greininni hóta þau Magnúsi Geir, Helga, Sigmari Guðmundssyni dagskrárgerðarmanni og viðmælendum lögsókn ef Magnús Geir, fyrir hönd RÚV, dregur ekki ummæli sem féllu í útvarpsviðtalinu við Aldísi á Rás 2 um miðjan janúar og í svargrein Helga og Sigmars þann 8. febrúar við grein Jóns Baldvins þann 7. febrúar, sem báðar birtust í Morgunblaðinu.

Fréttablaðið greinir frá því að útvarpsstjóri telur ekki tilefni til þess biðja hjónin afsökunar. Hann segir fréttagildi viðtalsins ótvírætt og að siðareglur hafi verið virtar við gerð þess. Magnús sagði Jón Baldvin ekki hafa haft beint samband við sig vegna málsins og að ef þau Jón Baldvin og Bryndís telji á sér brotið bendir hann á siðanefnd RÚV eða siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, þangað sé alltaf hægt að leita.