Tekur af allan vafa um að ákærurnar séu tilhæfulausar

Nýverið staðfesti Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur og vísaði frá kröfum fyrirtækjanna Akurholts og Geiteyrar, sem eru veiðiréttarhafar í Haffjarðará, á hendur Arnarlaxi, stærsta fiskeldisfyrirtækis landsins. Veiðirétthafarnir höfðu krafist þess að starfs- og rekstrarleyfi Arnarlax yrðu ógilt.

„Þetta er væntanlega endanlegur dómur. Mér skilst að þeir ætli að áfrýja til Hæstaréttar en við teljum það ólíklegt. Þetta hefur verið löng ganga og þetta er ákaflega jákvætt og mikilvægt skref fyrir okkur sem stöndum að laxeldi á Íslandi og þeirri uppbyggingu,“ segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax.

Kjartan er gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hann ræðir m.a. um dóminn, fyrirtækið og slysasleppingar eldislax úr sjókvíum.

Hann segir frávísun Landsréttar taka af allan vafa um að ákærur veiðirétthafanna séu tilhæfulausar. „Ákærur um það að við getum valdið þeim skaða á einn eða annan hátt eða stundum ólöglega starfsemi, vafasama á einhvern hátt, eru tilhæfulausar.“

Vill úrbætur vegna slysasleppinga

Kjartan viðurkennir að slysasleppingar á eldislaxi úr sjókvíum valdi skaða en ítrekar að þegar það gerist sé ávallt um slys að ræða. „Ég ætla ekki að sitja hérna og bera í bætifláka eða halda því fram að þetta sé réttlætanlegt á nokkurn hátt. Þetta eru slys sem eiga ekki að eiga sér stað og við þurfum að bæta úr. Greinin er að vinna að því hörðum höndum að bæta úr þessum slysasleppingum sem hafa sannarlega átt sér stað. Slys af þessu tagi eru auðvitað þekkt í útgerð.“

Hann segir allt uppi á borðum hjá Arnarlaxi þegar kemur að slysasleppingum. „Það er algjörlega skýrt af hálfu Arnarlax að það gerist ekkert hjá Arnarlax sem ekki þolir dagsins ljós, við tilkynnum um þessi frávik til yfirvalda, til Matvælastofnunar og til Umhverfisstofnunar. Öll frávik eru meðhöndluð sérstaklega í samvinnu við yfirvöld. Þegar maður sleppir, það er núll „tolerans“ fyrir þess háttar atvikum af okkar hálfu.“

Nánar er rætt við Kjartan í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.