Team rynkeby ísland hjólar fyrir krabbameinssjúk börn – „ætlum að gera betur en í fyrra“

„Við erum 37 hjólarar og með okkur er átta manna aðstoðarteymi og við ætlum að fara til Danmerkur og hjóla til Parísar. Við tökum í þetta átta daga og við erum að hjóla frá 150 upp í rúmlega 200 kílómetra á dag.“

Þetta segir Guðbjörg Þórðardóttir, sem fer fyrir hjólreiðateyminu Team Rynkeby Ísland. Hún ræddi við Snædísi Snorradóttur í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut á dögunum. Þar útskýrði Guðbjörg ástæðuna fyrir þessari metnaðarfullu hjólaferð.

„Team Rynkeby byrjaði sem samnorrænt góðgerðarverkefni, byrjaði í Danmörku árið 2002 í kringum Rynkeby djúsinn. Það voru sex menn þar, þeim langaði að hjóla frá Danmörku til Parísar að sjá Tour de France. [Þeir] fóru tíu manns og söfnuðu fé til fararinnar og gáfu afganginn þegar þeir komu til baka til krabbameinsdeildar barna í Óðinsvéum. Það var svona upphafið að þessu. Ári seinni langaði fleirum að fara. Þetta byrjaði svona og svo vatt þetta upp á sig.“ segir hún.

1.300 kílómetra leið

Sumarið 2017 tók íslenskt lið þátt í fyrsta sinn þegar rúmlega 30 hjólreiðamenn hjóluðu leiðina, alls 1.300 kílómetra, á átta dögum. Í fyrra var hópurinn 39 manns. Team Rynkeby Ísland er því að fara að taka þátt í ferðinni í þriðja sinn.

Aðspurð um hvernig hlutirnir hafi vaxið hjá íslenska Rynkeby liðinu segir Guðbjörg: „Bara mjög vel. Við fengum þessa hugmynd ég og Viðar Einarsson ásamt Lárusi og Ásu Birnu, sem búa í Danmörku, [árið] 2014. Við settum okkur í samband við höfuðstöðvarnar í Danmörku og vorum samþykkt sem umboðsaðilar fyrir verkefnið á Íslandi. [Við] fórum með dönsku liði 2016 til þess að sjá hvernig á að gera þetta og fórum síðan með fyrsta liðið 2017.“

Hafa safnað 26 milljónum

Team Rynkeby Ísland hefur á síðustu tveimur árum safnað og afhent Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna rúmar 26 milljónir króna - og er orðinn helsti styrktaraðili félagsins. „2017 hópurinn náði að safna níu og hálfri milljón. 2018 hópurinn safnaði rúmlega 16,6 milljónum og nú erum við með 2019 hópinn hérna og við ætlum að gera betur en við gerðum í fyrra,“ segir Guðbjörg.

Fara af stað 29. júní

Alls munu 2600 manns taka þátt í hjólaferðinni í ár. „Nú í dag eru þetta 54 lið frá Norðurlöndunum og Þýskaland er að fara í fyrsta skipti núna,“ segir hún.

Lagt verður af stað frá Kolding í Danmörku laugardaginn 29. júní. Nánari upplýsingar um ferðina, liðið og hvernig er hægt að heita á það er að finna á heimasíðu Team Rynkeby Ísland.

Viðtalið við Guðbjörgu er að finna í heild sinni hér: