Takmarka verður fyriferð rúv á markaði

Takmarka verður fyrirferð RÚV á auglýsingamarkaði svo minni einkareknir miðlar eigi yfirleitt einhverja möguleika á að halda starfsemi sinni úti. Markaðsdeild RÚV er óbeisluð og hrifsar til sín allt niður í smæstu skjáauglýsngar í krafti yfirburðastöðu, enda fái starfsmenn hennar prósentur af sölu.

Þetta var mat Sigmundar Ernis Rúnarsson, dagskrárstjóra Hringbrautar sem var einn gesta Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfri Ríkissjónvarpsins í dag, en þar sagði hann litla miðla þurfa að veðja á alls konar kostanir vegna hegðunar stofnunarinnar á auglýsingamarkaði - og sú kostun væri svo gjarnan dæmd ólögleg af Fjölmiðlanefnd sem leyfði RÚV að komast upp með sams konar kostanir, líklega vegna þess að hún legði ekki í stóra ríkisapparatið; auðveldara væri fyrir hana að sýna árangur í ársskýrslu með því að hundelta litlu miðlana sem hefðu ekki efni á lögfræðiaðstoð í þessum efnum.

Það væri einfaldlega skakkt gefið, í þau 33 ár sem liðin væru frá því ljósvakamiðlar voru gefnir frjálsir undan ríkiseinokun hefði í raun aldrei verið gert ráð fyrir einkaaðilum á þessum markaði; ríkið fengi alltaf sitt, ólíkt systurstofnunum á Norðurlöndunum - og öll umræða um aðstoð við einkarekna miðla snerist upp í umræðu um það hvernig RÚV yrði þá bættur skaðinn. En nýjum og álitlegum tillögum menntamálaráðherra bæri að fagna, eftir allan þennan tíma væri þó kominn fram stjórnmálamaður sem léti til skarar skríða, aðalatriðið væri þó, að sögn Sigmundar Ernis, að aðstoðin gagnaðist sem flestum og efldi gagnrýna og upplýsandi fréttamennsku, en væri ekki notuð til að hampa öðru fremur þeim fjölmiðlum sem væru hverju sinni í uppáhaldi ríkjandi stjórnvalda.