Tæplega 30 m.kr. tap á 4. ársfjórðingi

Hagnaður Skeljungs dregst saman um ríflega 9% á milli ára en á árinu 2017 hagnaðist félagið um 1.143 milljónir króna samanborið við 1.262 milljónir árið 2016. Í tilkynningu frá félaginu segir að afkomu hafi verið lituð af einskiptiskostnaði vegna breytinga í rekstra sem samtals nam 248 milljónum króna á árinu.

Rekstrarkostnaður nam 65,3% af framlegð og jókst um 1,3 prósentustig milli ára.

Á fjórða ársfjórðungi ársins 2017 tapaði Skeljungur tæpum 29 milljónum króna en á sama tímabili árið áður hagnaðist félagið um 157 milljónir króna.

Stjórn Skeljungs hyggst leggja til arðgreiðslu að fjárhæð 500 milljónum króna sem nemur 43,7% af hagnaði ársins 2017.

Eigið fé félagsins nam 7.112 milljónum í árslok 2017 sem gerir eiginfjárhlutfall upp á 38%. Arðsemi eigin fjár var 15% á árinu 2017 samanborið við 17,7% árið áður.

Fyrir árið 2018 áætlar félagið að EBITDA verði á bilinu 2.600-2.800 milljónir króna en það er í samræmi við EBIDTA síðustu tveggja ára en árið 2017 nam hún 2.618 milljónum en árið 2016 var EBIDTA 2.764 milljónir króna.

Hagnaður á hlut nemur því 0,54 krónum samanborið við 0,56 krónur árið 2016.

„Afkoma Skeljungs á árinu 2017 var mjög góð. Bæði íslenska og færeyska hagkerfið standa styrkum fótum og neysla, jafnt á einstaklingsmarkaði sem á fyrirtækjamarkaði, fer vaxandi. Kjarnastarfsemi félagsins er öflug og skilaði félaginu góðri niðurstöðu ársins í ár og mun áfram gera næstu árin. Engum fær þó dulist að íslenski eldsneytismarkaðurinn hefur verið að breytast. Erlendir aðilar hafa komið inn á markaðinn, jafnt á flugeldsneytismarkaðinn sem og á bifreiðaeldsneytismarkaðinn. Þá er einnig ljóst að endurnýjanlegir orkugjafar munu skipa æ sterkari sess hérlendis, sem annars staðar. Árið í ár markaðist því af ýmsum aðgerðum og verkefnum sem hrundið var í framkvæmd til þess að styrkja enn frekar stöðu félagsins og byggja undir þau sóknarfæri sem við félaginu blasa,“ er haft eftir Hendrik Egholm, forstjóra Skeljungs.