Tæki hringbrautar fundust í heimahúsi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst innbrot á sjónvarpsstöðina Hringbraut, sem líklega var framið síðastliðinn sunnudag, en tækin sem stolið var fundust í gærdag í heimahúsi meintra innbrotsþjófa á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsfólki Hringbrautar er stórum létt eftir atburðarás síðustu daga, en aðeins liðu röskir tveir sólarhringar frá því grunur vaknaði um innbrotið þar til lögreglan hafði haft upp á þýfinu.

Meðal tækja sem tekin voru úr húsakynnum Hringbrautar voru sjónvarpsskjáir, tölvuskjáir, kvikmyndatökuvélar og annar mikilvægur búnaður fyrir upptölu og útsendingu á efni stöðvarinnar, samtals að andvirði um ríflega þrjár milljónir króna, en ljóst er að tjón hennar hefði orðið mikið ef lögreglan hefði ekki sýnt jafn mikið snarræði í málinu og raun ber vitni.

Málið er nú til frekari rannsóknar lögreglu, en ljóst er þegar að þýfið var ætlað til sölu á svörtum markaði.

Starfsfólk Hringbrautar vill koma á framfæri þakklæti til lögreglu og rannsóknaraðila fyrir skjót og góð viðbrögð þegar innbrotsins varð fyrst vart og fagmennsku við uppljóstrun þess.