Sykur er ekki eitur

Gréta Jakobsdóttir næringarfræðingur er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Gréta er doktor í næringarfræði frá háskólanum í Lundi og starfar hjá Heilsuborg. Hún hefur í fyrirlestrum undanfarið fjallað um fjölmargar mýtur um mataræði og fleira tengt brenglaðri líkamsímynd og heilsu.

Hún nefnir sem dæmi sykur. „Ég er ekki sammála því að sykur sé eiturlyf. Mér finnst maður aðallega þurfa að hugsa sig svolítið um hvernig maður talar um hlutina. Það að nefna að eitthvað sé eitur, sem það er í rauninni ekki, því við deyjum ekki af því að borða pínulítið af því. Það er margt annað sem er í alvörunni eitur í okkar samfélagi. Þannig að maður þarf að passa sig hvernig maður orðar hlutina, upp á að börnin heyra það sem við erum að tala um,“ segir Gréta.

Hún bendir á að hunang, hlynsíróp og hrásykur séu einungis örlítið hollara en venjulegur sykur, þar sem það þyrfti að innbyrða þetta í svo miklu magni til þess að smávægilegur munur kæmi í ljós. Í þessu samhengi segir Gréta það óþarft að sæta allt sem við berum að munni okkar.

Spelt ekki hollara en hefðbundið hveiti

Hún segir spelt ekki hollara en hefðbundið hveiti, en að fólk þurfi að passa sig á því hvað það er að bera saman. „Oft þegar verið er að segja að speltbrauð sé hollara er verið að bera það saman við fransbrauð og þá klárlega er það hollara af því að oftast er speltbrauð aðeins grófara. En ef þú berð saman heilhveitispelt og heilhveiti, venjulegt hveiti, þá kemur venjulega hveitið í rauninni betur út ef við lítum til trefjanna. Maður þarf að passa sig að maður sé að bera saman sama hlutinn. Hvítt spelt og hvítt hveiti, það er bara rosalega svipað,“ segir Gréta.

Kolvetni ekki öll eins

Gréta segir að ekki þurfi að forðast kolvetni alfarið þar sem þau séu ekki öll nákvæmlega eins. T.d. sé það mikil einföldun að segja öll brauð slæm, þar sem það getur verið gífurlegur munur á grófu rúgbrauði með fjölda korna og fræja annars vegar og fransbrauði hins vegar. „Ef maður ber saman, segjum kleinuhringi og fransbrauð, og svo þessi grófu brauð, hafragrauta, ávexti og grænmeti, þá erum við í rauninni að tala um sitt hvorn hlutinn,“ segir Gréta.

Hún segir það mikilvægast að við innbyrðum trefjar í meiri mæli. „Það sem flestum vantar í dag í sitt fæði eru trefjarnar, margir eru að borða of lítið af þeim.“

Nánar er rætt við Grétu í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.