Sýklalyfjaónæmi í íslensku búfé

Vöktun Matvælastofnunar á sýklalyfjaónæmi í kjöti og dýrum árið 2018 sýnir að sýklalyfjaónæmi er til staðar í íslensku búfé og að horfa þurfi til fleiri þátta en innflutnings til að sporna við frekari útbreiðslu. Ónæmi fyrir sýklalyfjum í íslensku búfé er þó minna en í flestum Evrópulöndum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Matvælastofnun.

Vöktunin náði til tæplega 900 bakteríustofna úr sýnatökum Matvælastofnunar, framleiðenda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Sýni voru tekin úr svínum, alifuglum og lömbum og innlendu og erlendu svína- og alifuglakjöti, bæði á markaði og í afurðastöðvum.

ESBL/AmpC myndandi E. coli  bakteríur, sem bera gen sem hafa þann eiginleika að mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum og eru líklegri til að vera fjölónæmar, greindust í þörmum um fjögur prósent lamba. Það er álíka og í þörmum íslenskra alifugla og svína undanfarin ár. Hvernig ónæmar bakteríur bárust í lömbin eða hvort ónæmið myndaðist í lömbunum er ekki vitað og ekki heldur hvort um aukningu sé að ræða. Líkt öðru búfé eru íslensk lömb ekki laus við bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum eða bakteríur sem geta þróað slíkt ónæmi og dreift í aðrar bakteríur. Hlutfallið á Íslandi í alifuglum og svínum er svipað og á Norðurlöndunum en er þó lægra en í öðrum Evrópulöndum.

Þá var einnig skimað var fyrir MÓSA (methicillin ónæmir Staphylococcus aureus) í svínarækt hér á landi 2014/2015 og aftur 2018. Í hvorugri skimuninni fannst MÓSA, en sú baktería hefur breiðst út meðal búfénaðar í Evrópu og víðar, einkum í svínarækt. Matvælastofnun segir það vera fagnaðarefni að MÓSA hafi ekki enn greinst í íslenskri svínarækt.