Svona virkar þetta magnaða félag

Ferðalangur á fæti skilar sér ekki til byggða í Skaftafelli í gær, birtu farið að bregða.
Heimafólk kallað til, fámennt en öflugt. Björgunarsveitin í Öræfasveit, lögregla kemur frá Höfn og ferðaþjónustuaðilar af svæðinu hefja eftirgrennslan og átta sig fljótt á að frekari aðgerða er þörf.
Aukin mannafli kallaður til úr nágrannabyggðum sem eru í ca 100 km fjarlægð, Höfn og Klaustur. Sjálfboðaliðar stíga út úr sínu daglega lífi og tilbúnir að leggja fram krafta sína. Eftir því sem klukkan gengur eru kallaðar til fleiri bjargir, nóttin að skella á og kalt í veðri. Ferðalangur í ókunnu umhverfi og ekki búin til næturdvalar á fjöllum, fjölskyldan beið milli vonar og ótta.

Staðkunnugir leiða hópa leitarfólks um fjölbreytt svæðið upp af Skaftafelli, kallaðir til hundar drónar, þyrla og allt sem björgunarmönnum dettur í hug að komi að gagni. En mest reynir á gangandi velbúið fólk með öflug ljós og fjarskipti.

Skipulagsvinna á fullri ferð og enn fleiri bjargir kallaðar til. Frá Reykjavík austur á Vopnafjörð. Af hverju er verið að kalla út um miðja nótt svona margt fólk.
Svarið er einfalt, ferðalangurinn ófundinn, svæðið ógnarstórt og bjargir eiga um langan veg að fara.

Það gleðilegasta að ferðalangurinn fannst heill á húfi. En hitt, allt þetta öfluga fólk sem er tilbúið að stíga út úr sínu daglega lífi, frá kvöldmatnum og fjölskyldu sinni í skítakulda og freista þess að leggja öðrum lið. Félagar sem vinna samhent eftir þéttu og vel æfðu skipulagi viðbragðsaðila. Og síðast en ekki síst að til skuli vera til fólk með hugsjónir og eldmóð – sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem lögðust á koddann um kl hálf fimm í morgun sátt með framganginn. - Fólkið, skipulagið og hugsjónin