Sverrir hermannsson er látinn

Sverr­ir Her­manns­son, fyrr­ver­andi bankastjóri og ráðherra og einhver svipmesti stjórnmálamaður þjóðarinnar á síðustu öld, lést á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Mörk aðfaranótt mánu­dags­ins, 88 ára að aldri.

Sverr­ir fædd­ist á Sval­b­arði í Ögur­vík 26. fe­brú­ar 1930, son­ur hjón­anna Her­manns Her­manns­son­ar, út­vegs­bónda, og Salóme Rann­veig­ar Gunn­ars­dótt­ur, hús­móður. Hann lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri 1951 og viðskipta­fræðiprófi frá Há­skóla Íslands 1955. Hann starfaði m.a. sem skrif­stofu­stjóri Versl­un­ar­manna­fé­lags Reykja­vík­ur, 1956-1960, og full­trúi hjá blaðaút­gáf­unni Vísi hf. 1960–1962. Þá var hann formaður og fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands ís­lenskra versl­un­ar­manna frá stofn­un þess 1957 til 1972, en starfaði einnig um það leyti og allt fram á níunda áratuginn að út­gerðar­mál­um með bræðrum sín­um og var stjórn­ar­formaður út­gerðarfé­lags­ins Ögur­vík­ur 1970 til 1987.

Sverr­ir var varaþingmaður Aust­ur­lands frá 1964 til 1968 fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn og þingmaður Aust­ur­lands fyr­ir flokk­inn frá ár­inu 1971 til árs­ins 1988. Hann gegndi embætti iðnaðarráðherra 1983 til 1985 og mennta­málaráðherra 1985 til 1987. Þá var hann for­seti neðri deild­ar Alþing­is 1979 til 1983.

Sverr­ir varð banka­stjóri Lands­banka Íslands árið 1988 og gegndi því starfi til 1998. Það ár stofnaði hann Frjáls­lynda flokk­inn og var formaður þess flokks til 2003. Hann var kjör­inn á Alþingi á ný árið 1999 og var þingmaður Reyk­vík­inga fyr­ir Frjáls­lynda flokk­inn til 2003.

Eig­in­kona Sverr­is var Greta Lind Kristjáns­dótt­ir, sem lést árið 2009. Þau eignuðust fimm börn: Huldu Bryn­dísi, Kristján, Mar­gréti Kristjönu, Ragn­hildi og Ásthildi Lind. Fóst­ur­dótt­ir er son­ar­dótt­ir­in Greta Lind. Önnur barna­börn eru 12 tals­ins og langafa­börn­in eru 6.