Sveitarfélögin hafa lagt mikið af mörkum

Aldís Hafsteinsdóttir er gestur Lindu Blöndal í 21 í kvöld:

Sveitarfélögin hafa lagt mikið af mörkum

Aldís Hafsteinsdóttir
Aldís Hafsteinsdóttir

„Það er ekki þannig að framlögin hverfi úr Jöfnunarsjóðnum. Það sem er á ferðinni þarna er að það er búið að kynna okkur forsvarsmönnum sveitarfélaga á landinu að framlögin verði fryst í núverandi krónutölu, þannig að þær hækkanir sem hefðu orðið miðað við spár munu þá ekki renna til sveitarfélaganna. Okkur finnst þetta bara algjörlega óhugsandi, enda er Jöfnunarsjóðurinn hugsaður til þess að koma með fjárframlög til sveitarfélaga sem þurfa á þeim að halda til þess að sinna mikilvægri nærsamfélagsþjónustu við íbúana.“

Þetta segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hún ræðir fyrirhugaða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Sambandið sendi frá sér harðorða yfirlýsingu fyrir helgi þar sem þessari skerðingu upp á 3,3 milljarða króna á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er harðlega mótmælt. Aldís segir Jöfnunarsjóðinn vera öllum íbúum þessa lands mikilvægur þar sem hann sjái til þess að það sé jafngott, eða því sem næst, að búa alls staðar á landinu.

Aðspurð um hvort þessi aðgerð stjórnvalda sé liður í því að höfða til sveitarfélaganna um að koma með sitt útspil í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir segir Aldís svo vera. „En þá finnst mér algjörlega gleymast í þessari umræðu öll þau útspil sem sveitarfélögin hafa verið með og eru tilbúin til þess að stíga núna. Núna t.d. þessar umfangsmiklu tillögur í húsnæðismálum sem eru komnar fram. Þar eru sveitarfélögin einn stærsti leikarinn á því borði. Í stofnframlögum eru sveitarfélögin að koma með 12 prósent á móti 18 prósent ríkisframlaginu. Þannig að sveitarfélögin eru að stíga mjög mörg skref.“

Gleymist það sem þegar er búið að gera

„Svo finnst mér líka gleymast algjörlega það sem sveitarfélög hafa verið að gera. Sveitarfélögin eru búin að stíga svo mörg skref til hagsbóta, sérstaklega fyrir þá sem hafa minna, að mér finnst næstum því dapurlegt að heyra þessu umræðu núna, eins og sveitarfélögin hafi ekki gert neitt. Ég veit ekki betur en að t.d. leikskólagjöld séu í mörgum sinnum minna hlutfalli af rekstrarkostnaði í dag en þau voru bara fyrir nokkrum árum,“ bætir hún við.

Aldís heldur áfram: „Sveitarfélögin eru að reka frístundaskóla til að komast til móts við fólk sem einfaldlega þarf að vinna, og greiðir þennan frístundaskóla verulega niður. Sveitarfélögin eru með frístundastyrki, vel flest sveitarfélög eru búin að taka upp frístundastyrki fyrir fjölskyldur, fyrir börn þessa lands. Við erum farin að skaffa ókeypis ritföng í grunnskóla. Alls konar útspil sem sveitarfélögin hafa verið að koma með og skref sem hafa verið stigin á undanförnum árum sem hafa kannski ekki fengið nægilega umfjöllun eða einfaldlega [ekki] fengið þann sess í umræðunni sem þessi skref raunverulega ættu að hafa, sem er að það er sífellt verið að bæta lífskjör fólks, og kannski sérstaklega þeirra sem hafa minna.“

Hún segir að kannski hefði bara vantað að kynna þau fjölmörgu jákvæðu skref sem þegar hafa verið tekin betur og að hugsanlega hefði verið skynsamlegra að bíða með einhver af útspilunum þar til nú. T.d. hefði frístundastyrkur sem nýjung verið mjög sterkt útspil í yfirstandandi kjaraviðræður.

Nánar er rætt við Aldísi í 21 í kvöld. Þátturinn hefst sem endranær klukkan 21:00.

Nýjast