Sveinn: „nú er þetta bara orðið gott“ - gekk úr viðtali við hringbraut

Sveinn Guðmundsson, formaður stjórnar SÍBS, mætti á starfsmannafund í hádeginu í dag. Þar ræddi hann við starfsfólks Reykjalundar um þá stöðu sem sé komin upp eftir að stjórn SÍBS ákvað að segja upp Birgi Gunnarsyni, forstjóra Reykjalundar til 12 ára, og Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi til 35 ára. Allir þeir starfsmenn sem Hringbraut ræddi við lýstu yfir mjög mikilli óánægju með þessa ákvörðun stjórnar SÍBS. 

Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir á Reykjalundi og fulltrúi starfsmanna, sagði í samtali við Hringbraut að starfsfólk Reykjalundar væru búnir að senda bréf til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, þar sem þau lýsa yfir vantrausti á stjórn SÍBS. Magdalena segir að um ógnarstjórn sé að ræða í dag og fær starfsfólk lítið að vita hver sé raun ástæðan fyrir því af hverju það sé verið að segja upp mönnum með áratuga reynslu. 

Á starfsmannafundinum sagði Sveinn að hann væri með bréf sem Landlæknisembættið hefði sent sér þess efnis að starfsmenn bæri lagaleg skylda til að sinna sínum störfum. Landlæknir segir þetta rangt og að embættið hefði aldrei sent honum bréf þess efnis í samtali við RÚV.

Blaðamaður Hringbrautar bað um viðtal við Svein Guðmundsson, sem hann fékk. En í miðju viðtali ákvað Sveinn að slíta viðtalinu og ganga í burtu. Blaðamaður spurði ef þetta væri bara eðlileg uppsögn á helmingi framkvæmdastjórnar Reykjalundar af hverju það væri ekki meiri undirbúningur hafinn við að finna nýja einstaklinga í störfin sagði Sveinn að sú vinna væri í gangi.

BLM: Hver er þín reynsla af rekstri heilbrigðisstofnunar?

Sveinn: „Þetta er ákveðið ferli sem fer af stað. Við þurfum að hafa samband við það sem heitir ráðningarfyrirtæki. Það þarf síðan að fara fram lýsing á starfinu.“

BLM: Er þetta ekki eitthvað sem þið ættuð að vera löngu búin að gera og starfið auglýst hér á meðan hann var hér í starfi?

Sveinn: „Þetta er í gangi“

BLM: Já en undirbúningsvinnunni er augljóslega ekki lokið ?

Sveinn: „Sko, ég, undirbúningsvinnu?“

BLM: Er augljóslega ekki lokið. Það er engin auglýsing komin og það er ekkert......

Sveinn: „Eins og ég sagði á fundinum hérna áðan að þetta er í ferli núna og auglýsingin er að fara af stað.“

Sveinn Guðmundsson er lögmaður að mennt og starfar sem lögfræðingur á lögmannsstofunni Juralis. Spurður hvaða reynslu hann hafði af rekstri heilbrigðisstofnunar sagði hann að hann hefði meðal annars setið í stjórn Eyrar.

Sveinn: „Ég hef verið í stjórn Eyrar, sú ágæta stofnun fór niður eins og maður segir og var nánast gjaldþrota á sínum tíma. Þá var ég kallaður þar inn í stjórnina til viðgerðar. Ég hef því prýðisgóða þekkingu og reynslu á slíkum hlutum hvað varðar rekstur á stórum stofnunum.“ 

BLM: Nú erum við að tala um mann sem var með yfir 12 ára reynslu í þessum málum.......

Sveinn: „Nú er þetta bara orðið gott.“

Eftir þetta þurfti blaðamaður að labba á eftir Sveini í þeirri von að fá að klára viðtalið og hélt áfram að spyrja Svein vegna uppsagnanna.

Hér að neðan má hlusta á allt viðtalið við Svein Guðmundsson, stjórnarformann SÍBS.