Sveinn ingi tók eigið líf: „eru með blóð þessa unga fólks á höndum sér og það verður aldrei þvegið burt“

Sjö ár eru liðin síðan Sveinn Ingi tók sitt eigið líf á geðdeild sjúkrahússins á Akureyri. Faðir Sveins, Jack Hrafnkell Daníelsson segir andlát sonar síns ekki einsdæmi og fullyrðir að ráðherrar síðustu ára hafi blóð á höndum sér.

Segir hann að afleit staða geðheilbrigðismála á Íslandi hafi orðið til þess að fjöldi fólks hafi látist sem hefði verið hægt að bjarga. DV greindi frá því að Jack Hrafnkell telji nauðsynlegt að minna á þetta.

„Það veitir ekkert af því að koma þessum málum á framfæri í ljósi þess að sjáfsvígstíðnin er að aukast fremur en hitt og það eru gífurlegir fordómar innan heilbrigðisstéttarinar gagnvart geðveikum og fíklum,“ segir Jack Hrafnkell en sonur hans var aðeins 19 ára gamall þegar hann lést eftir baráttu við eiturlyfjafíkn og geðræn vandamál.

\"\"

 

Jack Hrafnkell Daníelsson faðir Sveins Inga

„Það eru í dag sjö ár síðan þessi ljúflingur tók líf sitt inni á geðdeild sjúkrahússins á Akureyri. Sjö ár og enn erum við að heyra af ungu fólki sem á við geðræn vandamál að stríða og unga fíkla sem koma að lokuðum dyrum hjá þeim stofnunum sem á með réttu að hjálpa þeim en mætir bara fyrirlitningu, útskúfun og fordómum frá því „fagfólki“ sem ætti að leiðbeina þeim, hjálpa þeim og aðstoða við að komast til heilsu á ný,“ segir Jack Hrafnkell í pistli sem hann birti á Facebook.

Segist Jack Hrafnkell ekki hafa tölu á þeim einstaklingum sem vísað hafi verið frá geðdeildum og bráðamóttöku vegna fordóma og heimsku.

„Jafnvel tekið líf sitt inni á geðdeildum eða meðferðarstofnunum þessi sjö ár frá því sonur minn kvaddi þetta líf og það er eins og það sé engin vilji hjá stjórnvöldum þessa lands til að bæta ástandið,“ segir hann og útskýrir enn fremur að hann hrylli við þeirri tilhugsun að fleiri foreldrar geti endað í hans stöðu.

„Nú erum við enn einu sinni að heyra að það eigi að spara á heilbrigðis og velferðarsviði LSH í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Mig hryllir við þeirri tilhugsun að fleiri foreldrar eigi eftir að missa börnin sín vegna þeirrar stefnu sem stjórnvöld hafa sett sér og það má alveg segja það upphátt að þeir ráðherrar sem hafa stjórnað landinu frá hruni eru með blóð þessa unga fólks á höndum sér og það verður aldrei þvegið burt,“ segir Jack Hrafnkell. Hann segist enn reiður út í stjórnvöld sem og sjálfan sig vegna andlát sonar síns.

„Hvað EF ég hefði gert, hugsað, sagt eitthvað annað? Hvað EF? Hvað EF? Hvað EF ég? Lætur mig aldrei í friði.“