Sveinn ætlar að víkja sem forstjóri - tók við stöðunni eftir að hafa sjálfur rekið forstjóra reykjalundar

Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS og starfandi forstjóri Reykjalundar, sendi frá sér tilkynningu þess efnis að hann muni víkja sem forstjóri Reykjalundar um leið og að búið verði að finna tímabundin forstjóra, á meðan er verið að auglýsa eftir nýjum forstjóra.

„Fram að ráðningu verður tímabundið settur forstjóri yfir stofnunina og undirritaður mun víkja sem forstjóri.“

Í tilkynningunni segir Sveinn einnig að undanfarnir dagar hafi verið erfiðir og harmar það ástand sem hefur komið upp á Reykjalundi.

„Undanfarnir dagar hafa verið stofnuninni og starfsfólki erfiðir. Vinnufélagar til margra ára hafa horfið á braut án fyrirvara og tímabundin óvissa hefur sett mark sitt á vinnustaðinn. Ég harma að til þess hafi komið. Ég skil að starfsfólki þyki aðstæðurnar slæmar, en vona að starfsemin komist í eðlilegt horf á allra næstu dögum.“

Hringbraut greindi frá því síðastliðinn þriðjudag að stjórn SÍBS hefði sagt upp Birgi Gunnarsyni, forstjóra Reykjalundar, fyrirvaralaust þann 30 september. Birgir hefði þá starfað í yfir 12 ár sem forstjóri Reykjalundar. Starfslokasamningur var gerður við hann og var honum gert að skrifa undir trúnaðarskjal þess efnis að hann mætti ekki tjá sig um ástæðu uppsagnarinnar. Starfsmenn Reykjalundar urðu vitni að því þegar Birgir var leiddur í burtu án nokkurra útskýringa. Þá fékk Birgir ekki tækifæri til að kveðja samstarfsfólk til margra ára, en hann þótti farsæll í starfi og var vel liðinn að sögn starfsfólks. Var starfsfólk slegið og var eins og áður segir ekki upplýst um af hverju brottreksturinn væri til kominn. Einn starfsmaður Reykjalundar segir að Birgi hafi ekki verið heimilað að taka eigur sínar af skrifstofu sinni, heldur var honum vísað beint út úr byggingunni.

Nokkrum dögum seinna ákvað sama stjórn að segja upp Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi. Magnús hafði starfað á endurhæfingarstöðinni í 35 ár. Einnig var gerður starfslokasamningur við hann og hann skrifaði einnig undir trúnaðarskjal þess efnis að hann mætti ekki tjá sig neitt um málefnið.

Að sögn þeirra aðila sem Hringbraut ræddi við innan SÍBS og Reykjalundar er ástæða uppsagnar Birgis ekki að ástæðulausu. Árið 2013 ákvað stjórn SÍBS að leigutekjur af húsnæði Reykjalundar skildu renna beint til félagsins en ekki til rekstrar Reykjalundar. Fjármagnið vegna leigutekna er um 30 milljónir árlega. Að sögn heimildarmanna barðist Birgir hart gegn því að umræddir fjármunir yrðu teknir úr rekstri Reykjalundar enda ljóst að slíkur niðurskurður myndi fyrst og fremst bitna á sjúklingum og starfsfólki. Birgir hafði betur í baráttunni en með skipan nýs forstjóra stendur ekkert í vegi stjórnar SÍBS að taka þessar dýrmætu 30 milljónir króna sem áður fóru til Reykjalundar og færa þær yfir í rekstur SÍBS, þar sem samþykkt stjórnar liggur fyrir. Þá segja heimildarmenn Hringbrautar að stjórn SÍBS sögð að reyna ítrekað að hafa áhrif á ákvörðunartöku þegar kemur að daglegum rekstri Reykjalundar. Þess má geta að SÍBS leggur enga fjármuni í daglegan rekstur Reykjalundar heldur sér íslenska ríkið alfarið um að fjármagna starfsemina sem þar fer fram. 

Alls hafa 114 starfsmenn Reykjalundar skrifað undir vantraustsyfirlýsingu gegn Sveini Guðmundssyni, stjórnarformanni SÍBS, sem send var Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Sagði talsmaður starfsmanna að ógnarstjórn væri við stjórn á Reykjalundi í dag.

Hér að neðan má hlusta á viðtal Hringbrautar við Svein Guðmundsson, en hann gekk úr viðtalinu við blaðamann Hringbrautar