„svart box sem ég veit ekkert hvað er inni í“

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, var gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut á mánudagskvöld. Þar ræddi hann m.a. þau þjónustugjöld sem viðskiptabankarnir þrír rukka fyrir hina ýmsu hluti og hvernig peningar hljóti að sparast fyrir þá með lokun útibúa.

„Væntanlega sparast peningur við að loka útibúum. Hérna í Vesturbænum var einu sinni útibú hér [í húsakynnum Hringbrautar að Eiðistorgi], það var eitt útibú hjá Hótel Sögu, það var annað stórt hjá Landsbankanum í Háskólabíói. Núna er þetta ekki svipur hjá sjón, þetta er farið. Það var í fleiri mánuði verið að gera upp útibúið á Hótel Sögu og svo var búið að gera það. Ég hitti eldri mann sem var að leita að því og fann það ekki því hann sá ekki neitt útibú, því að það er ein vél og svo er lítið herbergi með sjónvarpsskjá. Svo við þetta hljóta að sparast peningar. En spurningin er, kemur þessi sparnaður fram í minni þjónustugjöldum, minni vaxtamun? Hvar eru þeir? Svo þetta er allt bara svart box sem ég veit ekkert hvað er inni í,“ segir Gylfi.

Greiðslukerfið er orðið afar rafrænt og sjálfvirknin orðin æ meiri. Þetta virðist hafa í för með sér aukin þjónustugjöld. „Þróunin er sú að í árdaga notaði fólk seðla og mynt. Þetta var þjónusta sem hið opinbera veitti okkur, að gefa okkur þessa seðla sem við gátum notað og það kostaði ekkert að borga fyrir hluti með seðlum. Við getum gert það ennþá en fólk hefur leitað í kortin án þess kannski að gera sér alltaf grein fyrir því hvað það kostar þegar upp er staðið. Svo það er orðin rafræn greiðslumiðlun sem er í umsjá einkaaðila sem fá þá gjöld fyrir að sjá um þessa þjónustu. Það sem var áður opinber þjónusta er orðin einkaþjónusta,“ segir Gylfi og bætir við að þessa einkaþjónustu veita viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki, sem séu sennilega ekki í mikilli samkeppni.

Viðtalið við Gylfa í heild sinni er að finna hér: