Hefði ekki átt að deyja: eit­ur­lyf voru seld á landspít­al­an­um - „mamma lét vita“

„Mamma lét vita af því að þarna væri maður að selja eit­ur­lyf, en fékk ekki mikl­ar und­ir­tekt­ir.“

Þetta segir Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir þegar hún rifjar upp andlát Susie Rut Ein­ars­dótt­ur systur sinnar. Susie lést á Landspítalanum árið 2007 eftir að hafa fengið morfínplástra frá manni sem var að selja eiturlyf inni á Landspítalanum. Diljá sagði sögu systur sinnar í tímariti Samhjálpar.

Susie Rut Ein­ars­dótt­ir fædd­ist árið 1985, var elst fjög­urra systkina og ólst upp á góðu heim­ili í Grafar­vogi í Reykja­vík. Þegar hún var um 16 ára göm­ul, byrjaði hún ásamt nokkr­um vin­um sín­um að fikta með kanna­bis­efni. Hún ánetjaðist fljótt sterk­ari efn­um, en þegar hún var orðin 19 ára náði hún bata eft­ir að hafa farið í meðferð. Þrem­ur árum síðar veikt­ist hún það illa að hún þurfti sterk verkjalyf til að lina sárs­auk­ann. Hún féll aft­ur í neyslu og nokkr­um mánuðum síðar, í júní 2007, lést hún á gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans aðeins 22 ára göm­ul.

Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir, yngri syst­ir Susie Rut­ar, hef­ur haldið minn­ingu syst­ur sinn­ar á lofti frá því að hún lést. Fjöl­skylda Susie Rut­ar og vin­ir stofnuðu minn­ing­ar­sjóð um hana og sum­arið 2011 hljóp Diljá Mist hálft maraþon í Reykja­vík­ur­m­araþon­inu í fjár­öfl­un­ar­skyni fyr­ir minn­ing­ar­sjóðinn.

„Það er mik­il ábyrgð sem fell­ur á fjöl­skyld­ur fíkla og verk­efni þeirra eru flók­in. Það er full vinna að eiga aðstand­anda sem er fík­ill,“

seg­ir Diljá Mist þegar hún sest niður með rit­stjóra Sam­hjálp­ar­blaðsins til að rifja upp sögu syst­ur sinn­ar.

„Aðstand­end­ur eru hjálp­ar­laus­ir og stöðugt kvíðnir. Það er lífseig mýta að fíkl­ar komi úr erfiðu um­hverfi, og maður þarf yf­ir­leitt að byrja á því að út­skýra að svo hafi ekki verið í til­felli Susie Rut­ar. For­eldr­ar okk­ar eru bara venju­legt fólk úr Grafar­vog­in­um, við kom­um ekki frá brotnu heim­ili og þannig mætti áfram telja. Aðstand­end­ur barna með aðra sjúk­dóma þurfa ekki að taka þetta sam­tal.“

Að sögn Diljár Mist­ar var Susie Rut mik­ill fík­ill í sér og sýndi þá hegðun ung. Hún var karakt­er sem fór alltaf alla leið í því sem hún tók sér fyr­ir hend­ur. Hún lenti í einelti sem barn og átti um tíma erfitt upp­drátt­ar fé­lags­lega, þrátt fyr­ir að vera vinamörg.

„Susie Rut var mjög viðkvæm, en sterk á ákveðnum sviðum. Hún átti auðvelt með að passa upp á mig og standa með mér ef þess þurfti, en stóð aldrei með sjálfri sér,“ seg­ir Diljá Mist.

„Hún hafði þessa þörf fyr­ir viður­kenn­ingu eft­ir eineltið, byrjaði ung að reykja með vin­um sín­um. Ég hugsa að eini séns­inn henn­ar hefði verið sá að hún hefði aldrei átt að prófa, eins og hún sagði sjálf. Hún átti lík­lega enga mögu­leika eft­ir að hafa einu sinni prófað.“

Sem fyrr seg­ir var stofnaður minn­ing­ar­sjóður um Susie Rut eft­ir að hún lést. Sjóður­inn fór meðal ann­ars í aug­lýs­inga­her­ferð þar sem lögð var áhersla á að prófa aldrei fíkni­efni. Ein aug­lýs­ing­in var þannig að móðir drengs sem hafði lát­ist úr of stór­um skammti spurði hann, á meðan hann var á lífi, af hverju hann væri að þessu. „Mamma, þetta bara er svo gott,“ var svarið hans. Það var ekk­ert flókn­ara en það. Það eru marg­ir sem nota áfengi og vímu­efni til að deyfa sig, reyna að losna við til­finn­ing­ar eft­ir erfið áföll og svo fram­veg­is – en síðan er stór hóp­ur sem próf­ar einu sinni að fikta og er þar með fall­inn.

\"\" 

Susie Rut Ein­ars­dótt­ir

Þegar Susie Rut hafði lokið grunn­skóla fóru flest­ir vina henn­ar í Verzlunarskóla Íslands. Susie Rót fór hins veg­ar í Mennta­skól­ann í Reykja­vík (MR). Hún hafði áhuga á lækn­is­fræði og tók því, að sögn Diljár Mist­ar, aka­demíska ákvörðun um að fara í MR með það að í huga að fara síðar í lækna­nám.

„Hún fann sig hins veg­ar aldrei í MR og fór stuttu síðar að fikta með önn­ur efni, í fé­lags­skap sem við þekkt­um ekki. Neyslu­sag­an henn­ar var mjög hröð og hún var fljótt kom­in í bullandi neyslu. Við höfðum ekki hug­mynd um ástand henn­ar fyrr en um ári síðar, þegar góð vin­kona henn­ar kom og sagði mér frá þessu,“ seg­ir Diljá Mist.

Lífs­björg að geta komið heim

Hvernig upp­lifðir þú það að fá þess­ar frétt­ir?

„Það var auðvitað mikið áfall því við syst­ur höfðum verið mjög nán­ar. Þegar ég hugsa til baka þá var ég auðvitað bara krakki og hafði eng­ar for­send­ur til að þekkja nein merki um fíkni­efna­neyslu,“ seg­ir Diljá Mist.

„Hún hafði hins veg­ar falið þetta fyr­ir öll­um, því þarna hafði hún átt kær­asta í rúmt ár og hann hafði held­ur ekki hug­mynd um neyslu henn­ar. En þegar grím­an var fall­in þá varð hún í raun stjórn­laus. Hún hafði aldrei skipt skapi við mig áður og það var líka ákveðið áfall. Hún varð óviðráðan­leg. Eft­ir að þetta varð op­in­bert fyr­ir fjöl­skyld­unni var henni í raun sama, því það virt­ist ein­hverju fargi af henni létt að þurfa ekki að fela þetta leng­ur.“

Eft­ir að hafa upp­götvað að elsta dótt­ir þeirra væri í neyslu, leituðu for­eldr­ar henn­ar sér ráðgjaf­ar, en fengu að sögn Diljár Mist­ar mjög mis­vís­andi skila­boð um það hvernig best væri að taka á mál­inu. Hér er rétt að taka fram Diljá Mist, sem þarna var við það að byrja í mennta­skóla, á tvo yngri bræður sem voru enn í grunn­skóla.

„Þeim var ráðlagt þvers og kruss, meðal ann­ars að best væri að loka al­veg á fíkla og hleypa þeim ekki inn á heim­ilið. Það átti að gera í þeim til­gangi að vernda önn­ur börn á heim­il­inu og eins til að setja fíkl­in­um ákveðin mörk,“ seg­ir Diljá Mist.

„Þau hittu síðan ann­an ráðgjafa sem ráðlagði þeim al­veg hið gagn­stæða, þ.e. svo lengi sem þau gætu það mögu­lega og svo lengi sem það væri ekki gengið of mikið á okk­ar rétt sem yngri vor­um – þá ættu þau alltaf að hafa heim­ilið opið fyr­ir hana. Þau gerðu það og hún mátti alltaf koma heim. Hún var stund­um týnd og á miklu flakki, en gat alltaf komið heim og átti þar skjól. Það er ekk­ert rétt eða rangt í þessu, en í henn­ar til­viki þá sagði hún okk­ur síðar að það hefði verði henni lífs­björg að geta komið heim. Það voru mörg af þeim sem hún um­gekkst í þeirri stöðu að búið var að loka á þau og þau höfðu því eng­an sam­astað. En Susie Rut gat alltaf komið heim og fundið ást og hlýju.“

Diljá Mist seg­ir að þetta hafi verið erfður tími. Fjöl­skyld­an neydd­ist til að fá sér þjófa­varn­ar­kerfi. Þau fóru stund­um og sóttu hana eða höfðu af­skipti af því hvar hún dvaldi, en það var ekki vel séð af þeim sem hún um­gekkst á þeim tíma. Í raun litaði þetta líf fjöl­skyld­unn­ar meira og minna þann tíma sem Susie Rut var í neyslu.

Stefndi á lækna­nám

Susie Rut fór í meðferð árið 2003. Sú meðferð tók nokkra mánuði og að henni lok­inni fór hún á áfangaheimili þar sem hún bjó einnig í nokkra mánuði. Það var af sem áður var, því hún hafði áður farið í meðferð, en þar kynnt­ist hún eldri fíkl­um sem höfðu verið í harðri neyslu sem hún tengd­ist aft­ur að meðferð lok­inni og féll í neyslu með þeim. Að sögn Diljár Mist­ar hjálpaði það henni mikið að búa á áfangaheimili. Henni gekk vel á þess­um tíma og gerði í raun allt sem ein­stak­ling­ur í bata átti að gera. Eft­ir að hún varð edrú var hún mjög dug­leg að sækja fundi og reyna að hjálpa öðrum. Það eru marg­ir sem eiga henni líf sitt að launa frá þeim tíma.

„Það hjálpaði henni vissu­lega hvað hún hafði verið stutt í neyslu, þótt all­ur tími í neyslu sé vissu­lega of lang­ur,“ seg­ir Diljá Mist.

„Þetta var mik­ill rúss­íbani og hún fór al­veg á botn­inn á stutt­um tíma. Það mætti orða það þannig að lang­tímaskaðinn hafi ekki verið orðinn mik­ill, þó svo að sál­in hafi verið sködduð eft­ir þetta allt sam­an.“

Diljá Mist nefn­ir í fram­hjá­hlaupi að hún hafi veitt því eft­ir­tekt hversu marg­ir af fyrr­um neyslu­fé­lög­um Susie Rut­ar gátu ekki unað því að hún væri nú í bata­ferli.

„Hún þurfti til dæm­ist margoft að skipta um síma­núm­er og ég þurfti oft að fara með henni í Kringl­una því hún þorði helst ekki þangað ein. Ég varð oft vitni að því þegar hún hitti fyrri neyslu­fé­laga sem byrjuðu um leið að reyna að fá hana aft­ur með sér,“ seg­ir Diljá Mist.

Eft­ir að hafa náð bata tók Susie Rut upp fyrri áætlan­ir sín­ar um lækna­nám og fékk í millitíðinni starf sem tækni­maður á rönt­g­en­deild Lands­spít­al­ans. Hún hafði aldrei klárað mennta­skóla þar sem hún flosnaði upp úr námi sam­hliða því sem neysl­an tók völd­in. Hún hafði tekið nokkra áfanga í fram­halds­skól­um, en fór að lok­um í Mennta­skól­ann Hraðbraut sem hún kláraði á skömm­um tíma með glæsi­brag eft­ir að hún varð edrú. Í kjöl­farið fór hún meðal ann­ars til Dan­merk­ur til að kynna sér lækna­nám þar í landi.

Það varð þó ekk­ert af lækna­nám­inu því vorið 2007 veikt­ist hún skyndi­lega. Hún var upp­haf­lega greind með streptókokka, en sú grein­ing reynd­ist röng. Það kom fljótt í ljós að eitt­hvað al­var­legra var að þegar hún veikt­ist enn frek­ar, og var henni að lok­um gefið morfín vegna mik­illa verkja. Þar með var hún sjálf­krafa fall­in, og því var stefnt að því að þegar hún næði heilsu færi hún aft­ur í afeitrun.

\"\"

Systurnar saman

Eit­ur­lyf seld á spít­al­an­um

Hvernig brást fjöl­skyld­an við því að hún væri fall­in aft­ur, var fólk til­búið aft­ur í þá bar­áttu?

„Þetta gerðist svo hratt að það gafst í raun eng­inn tími til að meta það,“ seg­ir Diljá Mist.

„Þegar Susie var hvað veik­ust, áður en hún varð síðan end­an­lega edrú árið 2003, þá vor­um við vak­in og sof­in yfir þessu. Við vor­um far­in að hrökkva í kút í hvert sinn sem sím­inn hringdi. Það er eitt af því sem aðstand­end­ur búa við, þegar sím­inn hring­ir eða það er bankað á hurðina á skrýtn­um tíma, þá þorir helst eng­inn að svara, því það eru yf­ir­gnæf­andi lík­ur á því að þá bíði manns ein­hverj­ar slæm­ar frétt­ir. Við lent­um al­veg í því að lög­regl­an kæmi heim, og maður var alltaf að bíða eft­ir enda­lok­un­um. En þarna náðum við aldrei að kom­ast í þann gír, ef þannig má að orði kom­ast. Við viss­um að hún væri á sterk­um verkjalyfj­um og viss­um í raun hvert verk­efnið var.“

Brátt kom þó í ljós að Susie Rut var kom­in aft­ur í neyslu. Einn dag­inn þegar móðir henn­ar heim­sótti hana á spít­al­ann varð hún vör við mann sem var að selja eit­ur­lyf í lyftu spít­al­ans. Hún ætlaði ekki að trúa sín­um eig­in aug­um.

„Mamma lét vita af því að þarna væri maður að selja eit­ur­lyf, en fékk ekki mikl­ar und­ir­tekt­ir,“ seg­ir Diljá Mist þegar hún rifjar þetta upp.

„Síðar kom í ljós að hann hafði fengið morfín­plástra frá krabba­meins­sjúk­ling­um á líkn­ar­deild og seldi þá síðan áfram. Þetta var marg­fald­ur morfínskammt­ur og stór­hættu­leg­ur. Hann var að sama skapi orðinn vin­ur Susie Rut­ar, en þau dvöldu á sama gangi. Mamma fór fram á að tek­in yrði þvag­prufa af henni, og þá kom í ljós að hún var fall­in og hafði fengið efni frá hon­um.“

Eins og Diljá Mist nefndi rétti­lega eru morfín­plástr­ar stór­hættu­leg­ir fyr­ir þá sem þurfa ekki á þeim að halda. Susie Rut fór í hjarta­stopp og lést stuttu síðar, 18. júní 2007.

Góðu minn­ing­arn­ar lifa leng­ur

Spurð um sín fyrstu viðbrögð við því að syst­ir henn­ar væri aft­ur fall­in seg­ir Diljá Mist að hún hafi orðið bæði von­svik­in og reið, svo reið að hún vildi ekki ræða við hana.

„Ég hafði heim­sótt hana nær dag­lega á spít­al­ann fram til þessa,“ seg­ir Diljá Mist.

„Nokkr­um dög­um síðar var hún lát­in og það án þess að ég talaði við hana. Mér finnst það alltaf sárt og ég sé mikið eft­ir því. Bræður mín­ir höfðu heim­sótt hana síðustu dag­ana og afi minn kvöldið áður en hún lést. Hún og afi ræddu mikið um trú­mál og hún var orðin mjög hrædd.“

Þú seg­ist sjá eft­ir því í dag að hafa ekki rætt við hana, en eru það ekki á viss­an hátt eðli­leg og mann­leg viðbrögð að verða reiður þegar ást­vin­ur fer þessa leið?

„Jú, á viss­an hátt. Þar fara svo marg­ar til­finn­ing­ar í gegn hjá aðstand­end­um,“ seg­ir Diljá Mist.

„Susie hafði sagt mér áður að ég hefði aldrei verið eins góð við hana eins og þegar hún var í neyslu. Það var líka af því að ég var svo hrædd um að neysl­an myndi að lok­um draga hana til dauða. Um leið og hún varð edrú þá þoldi ég þetta ekki. Hún var búin að láta mig ganga í gegn­um al­gjört hel­víti, ég bjó með henni og var vak­in og sof­in yfir henni. Hún hafði alltaf passað upp á mig, og ég var svo reið út í hana fyr­ir að hafa snúið hlut­verk­un­um við. Mér fannst eins og hún hefði rænt mig ein­hverju, en fík­ill­inn rændi mig syst­ur minni á mik­il­væg­asta mót­un­ar­skeiði lífs­ins. Um leið og hún varð edrú var ég mjög köld við hana fyrst um sinn og átti erfitt með að sætta mig við þetta allt sam­an. Per­sónu­leika­breyt­ing­in verður svo mik­il. Hún var ákveðin týpa, svo byrj­ar hún í neyslu og verður önn­ur týpa, og svo verður hún edrú og er þá orðin þriðja út­gáf­an af sjálfri sér. En sú syst­ir mín sem ég saknaði svo mikið kom aldrei aft­ur.“

Diljá Mist leitaði síðar til AA-sam­tak­anna og fékk þá hjálp sem hún þurfti sem aðstand­andi.

„Ég er af­skap­lega þakk­lát fyr­ir þá aðstoð í dag. Ég þurfti að greina þetta bet­ur sjálf og ég skrifaði henni langt bréf þegar hún lést þar sem ég gerði sumt af þessu upp,“ seg­ir Diljá Mist.

„Þess­ar síðustu vik­ur sem hún lifði þá höfðum við sem fyrr seg­ir ekki áttað okk­ur á því að hún væri kom­in í mikla neyslu. Þegar það kom í ljós fékk ég þá til­finn­ingu að hún yrði aldrei sama mann­eskj­an aft­ur. Ef maður gæti gert hlut­ina aft­ur þá myndi maður gera þá öðru­vísi miðað við þá þekk­ingu sem maður hef­ur í dag. Það er auðvelt að vera vit­ur eft­ir á. En þetta er auðvitað ekk­ert sem maður lær­ir fyr­ir fram. Það mik­il­væga er að ég á enn góðu minn­ing­arn­ar um hana. Ég man hvernig lykt­in af henni var, lát­bragð og svo fram­veg­is. Þær minn­ing­ar lifa leng­ur en minn­ing­arn­ar um fíkil­inn.“

Dýr­mæt­ur en dýr­keypt­ur lær­dóm­ur

Af öllu þessu er ljóst að fíkni­efna­neysla ein­stak­linga hef­ur mik­il áhrif á aðstand­end­ur. Mögu­lega áhrif sem móta þá fyr­ir lífstíð.

„Alkó­hólismi er fjöl­skyldu­sjúk­dóm­ur og það verða all­ir veik­ir á ein­hvern hátt,“ seg­ir Diljá Mist þegar sam­talið snýr að þessu.

Hún seg­ir að fjöl­skyld­an hafi lært mjög mikið af þessu öllu sam­an. Þau lærðu að vera betri hvert við annað, en um leið meðvituð um það að sé ekki sjálfsagt mál að það komi dag­ur eft­ir þenn­an dag. Að sögn Diljár Mist­ar er það dýr­mæt­ur, en um leið dýr­keypt­ur lær­dóm­ur.

„Ég var 19 ára þegar Susie lést. Það að vera 19 ára og velta því fyr­ir sér dag­lega að það komi kannski ekki dag­ur eft­ir þenn­an dag er held­ur ekki mjög heil­brigt,“ seg­ir Diljá Mist

„Þegar ég eignaðist svo börn sjálf þá upp­lifði ég það að ég var mjög hrædd um þau á óeðli­leg­an og óheil­brigðan hátt. Það eru samt oft ein­kenni þeirra sem hafa upp­lifað mik­il áföll á borð við þau sem hér er fjallað um. Þegar Susie fór í hjarta­stopp var ég vak­in upp um miðja nóttu með sím­tali af gjör­gæslu­deild. Það sit­ur alltaf í manni og smit­ast út í annað sem maður ger­ir í líf­inu. Ef ein­hver svaraði ekki sím­an­um þá var ég byrjuð að skrifa minn­ing­ar­grein í hug­an­um. Ekk­ert af þessu er heil­brigt, en ég rifja þetta upp hér til að sýna fram á að þetta hef­ur miklu meiri áhrif en fólk ger­ir sér al­mennt grein fyr­ir.“

 Líf aðstand­enda und­ir­lagt

Diljá Mist er í dag aðstoðarmaður ut­an­rík­is­ráðherra, en starfaði áður sem lögmaður. Hún öðlaðist ný­lega mál­flutn­ings­rétt­indi við Hæsta­rétt. Sem lögmaður hef­ur hún starfað við mörg mál sem snúa að lögræði ein­stak­linga, þ.e. þegar ein­stak­ling­ar eru svipt­ir lögræði. Í þeim til­vik­um er gjarn­an leitað til lög­manna þegar aðstand­end­ur vilja ekki eða geta ekki tekið að sér það hlut­verk að sjá um viðkom­andi.

„Ég er mjög lán­söm með það að hafa haft tæki­færi til að taka svona mál að mér,“ seg­ir Diljá Mist.

„Ég hef tekið að mér mörg mál þar sem um er að ræða ungt fólk sem er eða hef­ur verið í mik­illi neyslu og er í kjöl­farið svipt sjálfræði, sum hver orðin stofn­ana­mat­ur. Þetta eru gjarn­an krakk­ar sem hafa svipaða neyslu­sögu og syst­ir mín, byrjuðu ung í neyslu og hafa síðar þróað með sér geðsjúk­dóma. Þarna sér maður af­leiðing­arn­ar. Þau koma frá alls kon­ar heim­il­um, en eiga það sam­eig­in­legt að hafa byrjað ung í neyslu og munu aldrei bíða þess bæt­ur.“

Hvað ger­ir það fyr­ir minn­ingu þína um Susie að taka svona mál að þér?

„Fyrst og fremst finnst mér þetta skipta máli fyr­ir skjól­stæðing­ana því ég þekki þetta af eig­in reynslu,“ seg­ir Diljá Mist.

„Í þess­um til­vik­um er ekki síður mik­il­vægt að sinna aðstand­end­um vel, því þeir vilja oft gleym­ast. Ef þú átt barn sem er þroska­skert eða glím­ir við lík­am­lega fötl­un, þá tek­ur við þér mjög gott stuðningsnet al­veg frá fæðingu. Þú ferð í ein­hvern far­veg og það er vel hugað að aðstand­end­um lang­veikra barna. Mögu­leik­arn­ir eru marg­ir og úrræðin mörg. Ef þú átt barn í neyslu eru ekki mörg úrræði sem standa þér til boða. Samt get­ur þetta ferli tekið ára­tugi fyr­ir aðstand­end­ur fíkla. Líf þitt verður und­ir­lagt af þessu og það eru ekki marg­ir sem hjálpa þér. Ég var til að mynda með á mínu borði mál konu sem var langt leidd. Hún var svo langt leidd að það tók því varla að hringja á sjúkra­bíl því slík út­köll gátu verið dag­legt brauð. Þetta var kona kom­in á miðjan ald­ur og for­eldr­ar henn­ar höfðu lengi reynt að bjarga henni. Þau gerðu ekk­ert annað en að hugsa um hana, en all­ir aðrir voru bún­ir að gef­ast upp á henni. Það eru mörg svona dæmi eða sam­bæri­leg.“

Diljá Mist seg­ir að eðli máls­ins sam­kvæmt hugsi hún oft hvað hefði orðið, ef Susie Rut hefði kom­ist í afeitrun og meðferð næstu daga eins og ætl­un Susie Rut­ar var.

„Um leið kemst maður ekki hjá því að hugsa hvort henn­ar hefði þá beðið sam­bæri­leg staða og þá um leið hvort að fjöl­skyld­unn­ar hefði beðið þetta verk­efni eða hlut­skipti sem ég hef lýst. Það er því margt sem brýst um í manni,“ seg­ir Diljá Mist.

Að lok­um bæt­ir hún því við að nú þegar 12 ár eru liðin frá því Susie Rut lést sé því miður enn of lítið um úrræði fyr­ir unga fíkla.

„Ég hef séð of marg­ar ung­ar stúlk­ur sem dvelj­ast lang­tím­um á geðdeild af því að það eru ein­fald­lega eng­in önn­ur úrræði. Það þarf að hjálpa þeim að fóta sig aft­ur í líf­inu, og til þess verða viðeig­andi úrræði að vera til staðar. Þannig náum við ár­angri,“ seg­ir Diljá Mist.