Styrmir og davíð minnast stefáns: heilsteyptur, góðgjarn og þrautreyndur blaðamaður

\"\"Stefán Friðbjarnarson fæddist á Siglufirði 16. júlí 1928. Hann lést á líknardeild Landspítalans 2. maí 2019. Stefán ólst upp á Siglufirði og sat í bæjarstjórn á Siglufirði og var bæjarstjóri 1966-74 áður en hann réð sig til starfa á Morgunblaðinu árið 1974. Þar var hann lengi umsjónarmaður þingfrétta en sinnti einnig stjórnmálaskrifum. Þess má geta að Stefán var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1996.

Stefán hafði mikil áhrif á Morgunblaðið og þá blaðamenn sem þar störfuðu.  Bæði Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og Davíð Oddsson núverandi ritstjóri blaðsins minnast Stefáns í Morgunblaðinu í dag.

Styrmir skrifar:

\"\"„Þegar Stefán Friðbjarnarson kom til starfa á ritstjórn Morgunblaðsins á árinu 1974 voru enn mjög náin tengsl á milli blaðsins og Sjálfstæðisflokksins. Geir Hallgrímsson var formaður Sjálfstæðisflokksins og myndaði ríkisstjórn það ár eftir einn glæstasta kosningasigur í sögu flokksins. Hann var jafnframt stjórnarformaður Árvakurs hf., útgáfufélags blaðsins. Fjórum árum seinna varð Sjálfstæðisflokkurinn að þola mikinn ósigur í borgarstjórnar- og þingkosningum og það sumar varð grundvallarbreyting á meðferð blaðsins á málefnum flokksins, sem var innsigluð fimm árum síðar, sumarið 1983, með formlegum hætti.

Stefán var af kynslóð sjálfstæðismanna sem voru hollir flokki sínum og forystumönnum hans og hafði reyndar sjálfur verið einn helzti forystumaður hans á Siglufirði um skeið. Hann hóf störf sem þingfréttaritari og sat þess vegna þingflokksfundi flokksins um skeið en varð jafnframt einn af leiðarahöfundum blaðsins.

Í því fólst að taka þátt í leiðarafundum á hverjum morgni, þar sem rætt var um efni leiðara og Staksteina næsta dags og ákveðið hver skyldi taka þau skrif að sér þann daginn. Segja má að við Stefán höfum því setið slíka fundi saman í tæpan aldarfjórðung, nánast alla virka daga ársins. Framan af voru það einungis ritstjórar blaðsins og trúir og traustir sjálfstæðismenn sem sátu þá fundi og tóku þátt í þeim skrifum. Á seinni hluta starfstíma Stefáns hafði orðið á því umtalsverð breyting. Það þurfti ekki lengur flokksskírteini til að sitja þá fundi og meiri áherzla var lögð á að breikka efnisval í þeim skrifum og til þess þurfti fjölbreyttari hóp með breiðari þekkingu og ólíkar skoðanir.

Ég veitti því athygli að Stefáni þótti þessar breytingar svolítið erfiðar. Hann hvatti til varkárni og hafði með því þau áhrif á okkur sem yngri vorum að við gættum betur að okkur. Það skipti máli á umbrotatímum í samskiptum blaðs og flokks.

Stefán Friðbjarnarson var einstaklega heilsteyptur og traustur samstarfsmaður. Hann hélt alltaf ró sinni í því daglega argaþrasi sem einkenndi ritstjórn Morgunblaðsins sem vinnustað. Ég lærði fljótt að það var hyggilegt að hlusta á gagnrýni hans og athugasemdir.

Davíð Oddsson sendir kveðju frá Morgunblaðinu en Davíð og Stefán þekktust persónulega:

 Kveðja frá ritstjórn Morgunblaðsins

\"\"Stefán var í nánu samstarfi við ritstjóra um jafnlangt skeið og fyrri tengslin vörðu. Þessi beinu tengsl stóðu því í hálfa öld. Stefán naut virðingar og mikils trausts á blaðinu, og gilti það jafnt um ritstjórn þess og starfsmenn almennt á þessum fjölmenna vinnustað. Blaðið breyttist í tímans rás í takt við þjóðfélagið sjálft. Tími flokksblaðanna, sem svo var kallaður, stendur höllum fæti í umræðu, enda fjarri því gallalaus. En þar fór þó enginn fram undir fölsku flaggi. Tiltekinn málstaður átti verjendur og sækjendur á þessum fjölmiðlum. Taumur þeirra, sem fyrir honum fóru í almennri umræðu, var dreginn feimnislaust og stundum minna eða jafnvel lítið gert úr sjónarmiðum annarra. Enda vitað fyrir víst að þeirra yrði gætt annars staðar.

Ég á persónulega góðar minningar um Stefán Friðbjarnarson frá því að ég var við þingfréttaskrif á spennandi tímum og var jafnframt hlaupamaður um stjórnmálaleg dálkaskrif með námi mínu.

Stefán varð fastur starfsmaður á blaðinu um þetta leyti niðri í Aðalstræti 6. Ritstjórar blaðsins voru lengi á „útkikki“ eftir ungu fólki til slíkra verka, sem var áhugasamt um þjóðmál og, þótt það væri ekki rætt, höfð hliðsjón af því hvort það væri nokkuð upp á kant við málstað réttlætisins sem blaðið fylgdi í stjórnmálaumræðunni, þótt þess gætti miklu minna í blæ frétta en stundum er haldið fram nú.

Þegar ég var í hópi þeirra sem Matthías kallaði síðar hugvitssamlega „morgunblaðseggin“ vorum við staðsett í allstóru herbergi á ritstjórnarganginum norðan megin á blaðinu. Stefán var okkar næsti yfirmaður og eins konar millistykki okkar við ritstjórana. Hann var prýðilega pólitískur en mun sjóaðri þá en eggin voru. Hann var hægur og hávaðalaus, elskulegur og háttvís en enginn lét það blekkja sig. Því hann var mjög staðfastur í skoðunum og fastur fyrir og vildi engan bjálfahátt.

Stefán hafði þó gaman af því hversu baráttuglatt þetta unga fólk var. En hann var þroskaðri en það og ráðinn í því að láta það njóta þeirrar reynslu. Það kom okkur vel. Hann gerði okkur grein fyrir því að góður málstaður hefði ekkert gagn af hóflausri fullyrðingagleði sem allir sæju í gegnum og vandaðir lesendur myndu telja hana móðgun við sig. Enda væri það svo, þótt við ættum kannski erfitt með að trúa því, að það hefði enginn einn einkarétt á sannleikanum. Og hann væri vandmeðfarinn, minnti stundum á fjöll sem eru „ólík sjálfum sér“ sé horft úr ólíkum áttum.

Stefán var heilsteyptur, góðgjarn og þrautreyndur blaðamaður og hertur í pólitískum eldi á heimaslóð, þar sem lengi var tekist harðar á en víðast á landinu. Það var gott fyrir ungviðið að njóta hans á mótunarskeiði og frábært fyrir blaðið að búa að krafti hans og velvild svo lengi.

Fyrir það er þakkað á kveðjustund. Davíð Oddsson.