Styrkur svifryks meiri á akureyri en í reykjavík

Loftgæði á Akureyri hafa verið afar slæm í apríl, en í þrígang hefur styrkur svifryks mælst yfir heilsuverndarmörkum. Ýmsar aðgerðir hafa verið reyndar til að minnka magn svifryks í lofti á svæðinu en með litlum árangri. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins.

Í mánuðinum hefur tvöfalt hærra gildi svifryks mælst á mæli Umhverfisstofnunar við Strandgötu á Akureyri en á mæli stofnunarinnar á Grensásvegi í Reykjavík. Það sætir tíðindum þar sem bæði umferð og mengun er og hefur verið mun meiri á fjölförnustu götum Reykjavíkur en nokkrum götum Akureyrar.

Snjó tekur nú upp í bænum, en þar sem sandur er notaður sem hálkuvörn á veturna kemur mikið magn sands undan snjónum þegar leysir.

„Við höfum verið að vinna í því með ýmsum leiðum að minnka styrk svifryks í bænum, til að mynda með því að sprauta sjó á göturnar til að binda rykið og einnig hafa götur verið sópaðar. Í vetur höfum við einnig verið að nota möl á göturnar sem er þrifin og á því að vera minna ryk af því efni en því sem verið hefur notað síðustu árin hér á Akureyri,“ segir Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, í samtali við Fréttablaðið.