Sturla: norrænt samstarf aldrei mikilvægara

„Norrænt samstarf er svo margþætt. Það nær inn í nánast öll svið mannlífsins hér á á Íslandi og hefur staðið svo lengi og kannski gengið svo vel og náð svo miklum árangri, að við erum hætt að taka eftir því að mörgu leyti.“

Þetta segir Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins í viðtali við Davíð Stefánsson í þættinum Ísland og umheimur, sem var sýndur á Hringbraut sunnudagskvöldið 19. maí. Sturla er gífurlega reynslumikill á sviði utanríkismála, enda starfað í utanríkisþjónustunni í 32 ár.

Hann segir að Norrænt samstarf hafi aldrei verið mikilvægara og að Norrænu ríkin fimm efli hvert annað. Sem heild geti þau komið mjög sterkt fram og að ávinningurinn af þessu samstarfi sé hvað mestur fyrir Ísland, sem er minnst af löndunum fimm. Markmið samstarfsins er enda háleitt: Að gera Norðurlöndin að samþættasta landssvæði heims, svæði mikils efnahagsstyrks og ríks félagsauðs.

Sturla segir samstarfið einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslendinga. „Það kemur náttúrulega til af sögulegum og menningarlegum tengslum, en líka vegna þess að við deilum með hinum fjórum ríkjunum grundvallargildum og hagsmunum. Þessi ríki teljast hlutfallslega á heimsmælikvarða til smærri ríkja, þó að þau séu sameiginlega efnahagslega sterk og hafi sameiginlega gott orðspor á alþjóðavettvangi. Þau eru náttúrulega staðsett öll í Norður Evrópu og hafa sameiginlega svæðisbundna hagsmuni.“

Hann segir ýmis mál hafa komið upp síðustu árin sem krefjist viðbragða af hálfu Norðurlanda sem heildar. Dæmi um það séu atburðir í Evrópu vegna Úkraínu, loftsslagsmál, fjölþjóðaógnir og nauðsyn netvarna. „Þetta eru mál sem hafa komist í hámæli síðan að Stoltenberg skilaði af sér. Við ætlum að taka frumkvæði sem lýtur að því í fyrsta lagi að leggja til við hin Norðurlöndin að það verði metið hvernig framkvæmd tillagna Stoltenbergs hefur gengið. Það er fyrsta skrefið. Næsta skrefið sem gæti fylgt í kjölfarið væri að samþykkja að fara í nýja skýrslugerð, það er aðra úttekt í ljósi breyttra aðstæðna einskonar „Stoltenberg 2“. Ég held að það gæti orðið athyglisverð lesning.“

Sturla segir ekki neinar ákvarðanir hafa verið teknar um slíka nýja skýrslugerð ennþá. „Þetta eru tillögur sem við erum að vinna með og hyggjumst fylgja eftir. Það má kannski nefna í þessu samhengi að það er eitt sem hefur gerst í kjölfar þess að Stoltenberg skilaði sinni skýrslu. Það er kannski ekki bara afleiðing af af skýrslunni, heldur líka af breyttum aðstæðum í alþjóðamálum. Það er samstarf og samráð Norðurlanda á sviði varnarmála, svokallað NORDEFCO varnarsamstarf. Það má kannski segja að ef við horfum á Norræna sviðið í heild að þetta sé sá þáttur sem að hefur vaxið hvað hraðast eða þróast hvað örast.“

Viðtalið við Sturlu í heild sinni er að finna hér: