Sturla keypti blokk eins og matthías: fengu báðir hagstæð lán frá íbúðarlánasjóði

Sturla Sighvatsson, sem skráður er fyrir á þriðja tug einkahlutafélaga, er fyrirferðarmikill á húsnæðismarkaðnum hér á landi. Á síðasta ári keypti hann 16 íbúða blokk á Ásbrú. Sturla fékk um 190 milljóna króna hagstæð lán frá Íbúðalánasjóði. Það sem er athyglisvert við lánið er að um er að ræða lán sem aðeins er ætluð óhagnaðardrifnum leigufélögum. Fréttablaðið greinir frá.

Sturla, sem fyrst varð þekktur hér á landi fyrir að leika Benjamín dúfu í samnefndri mynd hefur á seinustu mánuðum vakið athygli vegna fregna af rekstrarerfiðleikum. DV, Fréttablaðið og Stundin hafa fjallað um Sturlu. Þannig sagði Fréttablaðið nýverið frá vandræðum vegna byggingu blokkar við Gerplustræti 2-4 en Sturla átti aðeins lítinn hlut í því verkefni en stýrði því engu að síður. Þá greindi Stundin frá því að fjölmargar fasteignir í hans eigu hefðu verið auglýstar á nauðungarsölu.  

Á síðasta ári keypti Sturla fasteign sem heitir Grænásbraut 604A og 604B og er kaupverð 235,7 milljónir króna. Sturla stofnaði félagið Grænásbraut 604 ehf og fékk lán frá íbúðarlánasjóði að upphæð 190 milljóna króna.

Lánið frá íbúðarlánasjóði er óhagnaðardrifið og félög sem fá slík lán þurfa að uppfylla ýmis skilyrði. Ekki má greiða arð úr slíkum félögum og launagreiðslur skulu vera hóflegar. Þá eru vextir 4,2 prósent. En þó vextirnir séu nokkuð háir er lánshlutfallið mjög hátt eða 80 prósent af kaupverði. Þá er lánstími til 50 ára.

Í Fréttablaðinu er bent á að möguleikinn til að hagnast felst í því að selja félagið í heild og greiða upp lánið frá Íbúðarlánasjóði og þá með t.d. endurfjármögnun frá annarri lánastofnun.

Þá bendir Fréttablaðið á að fyrir mánuði var greint frá því að fjárfestirinn Matthías Imsland hefði keypt heila blokk á Akranesi og tugi íbúða í Vestmannaeyjum með nákvæmlega sama hætti og Sturla. Í umfjöllun DV um kaup Matthíasar í Vestmannaeyjum sagði:

„Ólíklegt verður þó að teljast að einstök samfélagsleg umhyggja ráði för hjá Matthíasi.  Ef veðmálið gengur upp og fasteignamarkaðurinn í Eyjum tekur við sér, eins og ýmislegt bendir þegar til, þá getur hann alltaf selt félagið til annarra fjárfesta eða leigufélaga.

Matthías þekkir vel til hjá lánardrottni sínum, Íbúðalánasjóði. Hann var þar innsti koppur í búri þegar hann starfaði sem aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, frá því í maí 2013 fram í janúar 2016 þegar hann færði sig um set til þess að aðstoða Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra. Í störfum sínum kom hann að ýmiss konar endurskipulagningu hjá stofnuninni. Til að mynda skrifaði Eygló undir reglugerðina, vegna lána til byggingar eða kaupa leiguíbúða, í nóvemberlok 2013.

Þess má svo geta að Sturla og Matthías hafa átt í nánu viðskiptasambandi undanfarin ár og eiga t.d. saman félagið HV 10 ehf. Það félag á umdeildar fasteignir við Óðinsgötu. Í Fréttablaðinu segir:

„Þessar fasteignir brunnu til kaldra kola um mitt síðasta ár og hafa ítrekað verið auglýstar á nauðungarsölu undanfarna mánuði.“