Stundin: ekki hægt að treysta eggerti

Ritstjórar veffréttamiðlanna Stundarinnar og Kjarnans vísa báðir gagnrýni Eggerts Skúlasonar, ritstjóra DV, á bug. Ritstjóri Stundarinnar segir að Eggert sé sjálfur vanhæfur til að fjalla um Panamalekann.

Eins og Hringbraut greindi frá í morgun gagnrýnir Eggert harðlega að valdir fjölmiðlar hafi aðgang að gögnum úr Panamalekanum vegna samstarfs við Reykjavík Media en ekki DV. Þeir miðlar sem Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media hefur veitt aðgang að skjölum til að vinna sjálfstæðar fréttir upp úr eru Kjarninn, Stundin og Rúv. Eggert segir búið að einkavæða Panamalekann fyrir miðla sem væru hallir undir \"ákveðin öfl\". Hann telur reglur um jafnræði brotnar. Blaðamannafélag Íslands ætti að beita sér í málinu.

Um þessa gagnrýni Eggerts segir Jón Trausti, ritstjóri Stundarinnar, í samtali við Hringbraut:

\"Það er ekki bara ósköp eðlilegt, heldur líka nauðsynlegt, að gæta þess að þeir sem fjalli um mál séu ekki vanhæfir til þess vegna eigin hagsmuna og stöðu. Það er ein helsta grundvallarreglan í blaðamennsku. Ég þekki ekki forsendur Reykjavík Media að öllu leyti, en býst við því að þær séu eftirfarandi: Í fyrsta lagi, þeir eru of fámennir til að geta unnið úr öllum gögnunum og þurfa því annað hvort að sleppa mörgu eða hleypa öðrum að. Í öðru lagi, þeir velja þá til samstarfs sem eru ekki vanhæfir til að fjalla um málin vegna beinnar eða óbeinnar þátttöku sinnar í málunum.\"

Jón Trausti bendir vegna vanhæfisrakanna á fyrri tengsl ritstjóra DV við ákveðin erindi. \"Eggert virðist hins vegar ekki sjá það sem vandamál að vera vanhæfur. Hann skrifaði til dæmis bók um að rannsóknir sérstaks saksóknara væru ofsóknir, á sama tíma og hann var sjálfur til rannsóknar, án þess að geta um það. Bókin var gefin út af bókaútgáfu sem er stýrt af kjarnameðlimum í Sjálfstæðisflokknum, meðal annars Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, og svo fyrrverandi Kaupþingsmönnum.\"

Jón Trausti bætir við: \"Auk þess var sérstætt, út frá faglegu og blaðamennskulegu sjónarmiði, að lesa viðtal við hann í DV, blaðinu sem hann ritstýrir, um hvernig hann hefði þegar greint frá því að hann ætti félag í skattaskjóli, þegar hann í reynd hafði ekki greint frá því heldur einungis sagst eiga félag erlendis. Ef ég hefði aðgang að öllum skjölunum í Panama-lekanum myndi ég ekki veita þeim aðgang að þeim sem væru of tengdir gögnunum og vísbendingar væru um að hefðu annarlega hagsmuni. Ég myndi ekki veita Eggerti aðgang að þeim vegna augljóss, formlegs hagsmunaáreksturs, vanhæfi og hættu á trúnaðarbresti.\"

Ekki hallir undir nein \"öfl\"

Ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, vísar einnig gagnrýni á bug í samtali við Hringbraut. Hann segir að verklagið hér sé viðhaft við vinnu úr Panamaskjölunum út um allan heim, það er að valdir fjölmiðlar komi að vinnu úr þeim.

\"Mér finnst ekkert óeðlilegt við þá leið sem er farin, sérstaklega þegar við blasir að stjórnendur ákveðinna fjölmiðla eru sjálfir í skjölunum. En það er Reykjavik Media sem tekur ákvarðanir um samstarfsaðila og þeir verða að svara því af hverju þeir sem nú eru að vinna úr skjölunum voru valdir til þess. Okkar tilgangur er alltaf sá að segja fréttir og upplýsa lesendur okkar. Kjarninn er ekki hallur undir nein öfl og hefur aldrei verið,\" segir Þórður Snær.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Reykjavík Media, segir í svari við fyrirspurn Hringbrautar vegna málsins: \"Ummæli ritstjóra DV dæma sig sjálf. Það eina sem ég vil segja er þetta; Panamaskjölin verða unnin af traustum blaðamönnum sem hafa aðeins eitt að leiðarljósi; að skrifa fréttir af fagmennsku uppúr skjölunum á næstu vikum og mánuðum.\"

Geta má þess að á sama tíma og Eggert Skúlason, ritstjóri DV, gagnrýnir Jóhannes harðlega hafa aðrir blaðamenn hvatt landsmenn til að senda inn tilnefningar til að Jóhannes verði sæmdur fálkaorðu fyrir afhjúpun sína sem m.a. felldi forsætisráðherra landsins af stalli.

-BÞ