Stuðningur við ríkisstjórnina eykst lítillega

Í nýrri könnun MMR jókst stuðningur við ríkisstjórnina lítillega frá síðustu mælingu, úr 41,5 prósent í 42,8 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins bæta lítillega við sig fylgi en Vinstri græn, Píratar, Viðreisn og Miðflokkurinn minnka við sig fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn er með mest fylgi og mældist með stuðning 22,7 prósent landsmanna í könnuninni sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst um tæpt prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 28. janúar. Samfylkingin kemur næst og mældist með 15,9 prósent fylgi, sem er tæplega hálfu prósentustigi meira en flokkurinn mældist með í síðustu könnun og þriðji stærsti flokkurinn er Framsóknarflokkurinn, en fylgi hans jókst um tæpt prósentustig og mældist nú 13,5 prósent. Þá minnkaði fylgi Vinstri grænna um rúmlega eitt prósentustig, fylgi Pírata minnkaði um rúmlega eitt og hálft prósentustig og fylgi Miðflokksins minnkaði um rúmlega tvö prósentustig frá síðustu mælingum.

Fylgi Vinstri grænna mældist nú 11,1 prósent og mældist 12,2 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Pírata mældist nú 10,4 prósent og mældist 12,0 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar mældist nú 8,1 prósent og mældist 9,2 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Flokks fólksins mældist nú 6,9 prósent og mældist 5,4 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Miðflokksins mældist nú 6,1 prósent og mældist 8,3 prósent í síðustu könnun.
Fylgi annarra flokka mældist 5,2 prósent samanlagt.

Lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“. Fjölda þeirra sem svaraði \"einhvern hinna\" í spurningu 3 var skipt milli annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins í sama hlutfalli og fylgi þeirra var skv. spurningum 1 og 2. Samtals voru 78,6 prósent sem gáfu upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (5,8 prósent), myndu skila auðu (7,9 prósent), myndu ekki kjósa (2,3 prósent) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (5,5 prósent).