Strokufanga leitað um allt land

Starfsmenn fangelsisins að Sogni uppgötvuðu í morgun þegar hús voru opnuð að Sindri Þór Stefánsson, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á umfangsmiklum þjófnaði, væri flúinn úr fangelsinu, samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV. Allt landið er undir, segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofuna.
 

Sindri hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því í febrúar vegna gruns um að hann tengist þremur innbrotum í Reykjanesbæ og Borgarbyggð þar sem 600 tölvum var stolið. Verðmæti þýfisins er talið nema um 200 milljónum.

Gæsluvarðhaldið yfir Sindra var framlengt til 26. apríl í gær, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Sindri var í tilkynningu lögreglu sagður hafa strokið í nótt en starfsmenn fangelsisins uppgötvuðu í morgun að hann væri á bak og burt þegar hús vor opnuð. 

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, sagðist ekki geta tjáð sig um einstaka mál.  Hann sagði að í opnum fangelsum væru þeir vistaðir sem ekki teldust hættulegir á þeim tíma sem þeir væru þar „og við teljum hægt að treysta til að vera í þeim aðstæðum.“ 45 fangar séu í opnum fangelsum hverju sinni og strok þaðan sjaldgæft enda mikið undir. „Samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara eru þinghöldin í þessum málum lokuð og  er gert ráð fyrir því í nýjum samskiptareglum dómstóla og ákæruvalds að í lokuðum málum upplýsi dómurinn um efni ákæru,“ segir Páll við RÚV.