Frakkland: strangari innflytjendalög

Ný og strangari innflytjendalög voru samþykkt í fulltrúadeild Frakklandsþings í gær.

Nýja löggjöfin þrengir að réttindum hælisleitenda og ólöglegra innflytjenda. Samkvæmt henni er nú gefinn mun styttri frestur til að gefa sig fram við yfirvöld og sækja um hæli eftir að fólk kemur til landsins. Eins verður stjórnvöldum heimilt að halda ólöglegum innflytjendum í lokuðum flóttamannabúðum helmingi lengur en áður. Refsing fyrir að koma ólöglega til Frakklands verður eins árs fangelsi.

Macron Frakklandsforseti segir lögin miða að því að hraða málsmeðferð hælisleitenda, en gagnrýnendur segja löggjöfina ganga alltof langt í því að takmarka réttindi hælisleitenda og annarra innflytjenda.