Stórfelldum skattalagabrotum sigur rósar vísað frá í héraðsdómi

Frávísunarúrskurður í máli fjögurra meðlima hljómsveitarinnar Sigur Rósar var kveðinn upp í Héraðsdómi í morgun en fjórmenningarnir voru grunaðir um stórfelld skattalagabrot. 

Þeim Jón Þór Birgis­son, Orri Páll Dýra­son, Georg Holm og Kjartan Sveins­son var gefið að sök að hafa komist hjá að greiða rúmlega 150 milljónir króna og var rannsókn málsins mjög umfangsmikil. Eignir fyrir um 800 milljónir króna voru kyrrsettar meðan á henni stóð en tónlistarmennirnir greindu frá því að málið mætti rekja meðal annars til mistaka endurskoðanda. 

Fréttablaðið greindi frá því að héraðssaksóknari hafi strax ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar og er áfrýjunarfresturinn fjórar vikur. Lögmaður hljómsveitarinnar, Bjarnfreður Ólafsson segir að dómurinn hafi tekið undir með frávísunarkröfu sinni sem byggð var á því að um væri að ræða tvöfalda málsmeðferð sem ekki samræmist mannréttindasjónarmiðum.

„Það er bara útaf þessum kerfis­vanda sem að er hér á landi. Það er tvö­föld refsing í svona stærri skatta­laga­málum. Það er lögð á refsing hjá ríkis­skatt­stjóra og síðan fer málið í aðra með­ferð sem er sjálf­stæð rann­sókn hjá sak­sóknara og dóm­stóla­mál og farið fram á við­bótar­refsingu í máli sem þegar er búið að refsa fyrir,“ segir Bjarn­freður og bætir því við að íslensk stjórnvöld ætli seint að horfast í augu við þennan kerfisvanda.