Stofna viðskiptaráð íslands og esb

Félag atvinnurekenda áformar að stofna í næsta mánuði Viðskiptaráð Íslands og ESB til að fjalla um viðskipti milli Íslands og Evrópusambandsins og þrýsta á um að viðskipti samkvæmt EES-samningnum og öðrum samningum Íslands og ESB gangi greiðlega.

Stofnfundur verður haldinn 17. apríl, samhliða málþingi um viðskipti Íslands og Evrópusambandsins, sem FA skipuleggur í samstarfi við sendinefnd ESB á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá FA í dag.

Ýmislegt ógnar nú greiðum viðskiptum Íslands og ríkja ESB; þannig gengur hægt að innleiða nýja EES-löggjöf, kröfur eru uppi um að Íslandi uni ekki dómi EFTA-dómstólsins um innflutning á ferskum búvörum og jafnframt hafa hagsmunaaðilar í landbúnaði krafist þess að samningi Íslands og ESB um aukna fríverslun með búvörur verði sagt upp, segir ennfremur í tilkynningunni.