Stöðva starfsemi og innkalla allar reyktar afurðir

Listeríumengun herjar á Ópal Sjávarfang:

Stöðva starfsemi og innkalla allar reyktar afurðir

Ópal Sjávarfang hefur ákveðið að stöðva alla framleiðslu og dreifingu sína og hefur innkallað allar reyktar afurðir þess úr verslunum í samráði við Matvælastofnun. Frekari rannsókn á örverumengun hjá Ópal Sjávarfangi gefur tilefni til að ætla að ekki hafi tekist að uppræta listeríumengun í fyrirtækinu og að fleiri afurðir kunni að vera mengaðar af bakteríunni. Þetta kemur fram í frétt Matvælastofnunar, sem mun sjá um eftirlit vegna stöðvunar á starfsemi fyrirtækisins á meðan unnið er að úrbótum.

Áður hefur verið greint frá því að graflax frá Ópal Sjávarfangi var innkallaður og síðar reyktur lax og bleikjuafurðir frá sama fyrirtæki, vegna listeríu sem greindist í afurðunum.

Að þessu sinni nær innköllunin til allra lotunúmera á reyktum afurðum frá fyrirtækinu sem eru á markaði með síðustu notkunardaga í janúar, febrúar og mars. Um er að ræða allan kaldreyktan lax, heitreyktan lax, reykta fjallableikju, reyktan makríl og síld: bita, hálfflök, flök, kubba, hnakka, sneiðar, áleggslax og laxakurl. 

Nýjast