Stjórnvöld vanmátu stöðuna

Stefanía Óskarsdóttir dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands segir að það blasi við að stjórnvöld hafi ekki hugsað það til enda hvaða afleiðingar stuðningur við þvingunaraðgerðir gagnvart Rússum hefði.
 

Óljóst sé hvort Rússar taki Ísland af listanum þótt stjórnvöld ákveði einhliða að hætta stuðingi við þvingunaraðgerðir. Þetta sagði hún í samtali við RÚV í gærkvöld, en þar undraðist hún að ekki hefði verið hugsað um næstu leiki í stöðunni: \"Svona það sem blasir við þeim sem stendur fyrir utan þetta, er að það virðist ekki hafa verið alveg úthugsað af hálfu Íslendinga hvaða afleiðingar það gæti haft að Ísland gæti lent á lista ríkja sem falla undir innflutningsbann Rússa,“ sagðu hún við miðilinn..

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur farið þess á leit við Evrópusambandið að tollar á makríl verði endurskoðaðir. Stefanía minnir á yfirstandandi deilu við Evrópusambandið um veiðar á makríl. Ekki sé víst að sambandið sýni Íslandi mikinn skilning nú. Hún telur einnig óljóst hvort Rússar taki Ísland af listanum ákveði íslensk stjórnvöld einhliða að draga til baka stuðning sinn við þvingunaraðgerðir: \"Það er ekkert útséð með það. Manni virðist kannski að það sé hluti af strategíu- áætlun Rússa inn í framtíðina að byggja upp sinn hernaðarmátt og sínar varnir. Og liður í því væri að tryggja innlenda matvælaframleiðslu og verða sjálfir sér nógir í innlendri matvælaframleiðslu,“ sagði Stefanía í gærkvöld.