Stjórnvöld bregðast fólki með ódæmigerð kyneinkenni

„Intersex er í rauninni regnhlífarhugtak yfir fólk sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni og þetta getur þá verið litningar, þetta getur verið kynkirtlar, þetta getur verið útlit á kyn- og æxlunarfærum, þetta geta verið einkenni sem koma fram á seinni þroskastigum eins og hárvöxtur í andliti, tíðahringur og fleira sem er með einhverju móti frábrugðið því sem gerist hjá flestum konum og körlum,“ segir Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

Amnesty International gaf nýverið út skýrslu er nefnist No Shame in Diversity: The right to health for people with variations of sex characteristics in Iceland. Í henni kemur m.a. fram að einstaklingar sem fæðast með líffræðileg kyneinkenni sem eru ekki dæmigerð fyrir karlmenn eða konur sæti hindrunum í aðgengi að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem stofni líkamlegri og andlegri heilsu þeirra í hættu.

Anna var gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld, þar sem hún ræddi skýrsluna.

Hún segir ástæðurnar fyrir því að fólk fæðist með ódæmigerð kyneinkenni vera mismunandi: „Þær geta verið erfðafræðilegar, þær geta stýrst af hormónum og fleiri þáttum.“

Í skýrslunni er tekið fram að sumir einstaklingar með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni fæðast með kyneinkenni sem teljast ekki algjörlega karl- eða kvenkyns, eru sambland af karl- og kvenkyns einkennum, eða eru hvorki karl- né kvenkyns. Margt fólk með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni kýs að kalla sig intersex, aðrir vilja hins vegar ekki nota það hugtak. „Þetta hugtak, intersex, er þá í rauninni hugtak sem sumir sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni vilja nota þannig að við notum það í samræmi við það,“ segir Anna.

Íslensk stjórnvöld bregðast

Í skýrslunni er bent á að þrátt fyrir að jöfnuður milli kynjanna sé, samkvæmt Alþjóðaefnahagsráðinu, hvergi meiri en hérlendis og að Ísland tróni í efsta sæti yfir kynjajöfnuð níunda árið í röð, þá bregðast íslensk stjórnvöld enn því hlutverki sínu að koma á mannréttindamiðuðu verklagi innan heilbrigðisþjónustunnar og tryggja einstaklingum með ódæmigerð kyneinkenni þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

„Það hafa verið framkvæmdar aðgerðir á börnum til þess að laga líkama þeirra að einhverjum útlitsstöðlum sem samfélagið mótar, sem læknar eða heilbrigðisstéttin skilgreinir sem karla- eða konulíkama. Þannig að þessar aðgerðir, eða þessi inngrip, þetta eru ekki alltaf aðgerðir, þetta geta verið inngrip með öðrum hætti eins og hormónameðferð eða lyfjagjafir, sem við erum að fjalla um eru þær aðgerðir sem eru ónauðsynlegar og óafturkræfar og hafa skaðleg áhrif til langs tíma, annað hvort líkamleg eða andleg áhrif,“ segir Anna.

Anna nefnir dæmi um þessi áhrif: „Það geta verið ýmsar afleiðingar. Það getur verið beinþynning og beinarýrð, það getur verið tíðahvörf, margoft þess vegna sem konur hafa gengið í gegnum útaf hormónameðferðum. Það sem við erum líka að sjá eru andleg áhrif þess að fá ekki þá þjónustu sem það á rétt á innan heilbrigðiskerfisins. Það er í raun það sem skýrslan er að fjalla um.“