Stjórnin kveður einar braga: „ekki óraði okkur fyrir að þetta yrði síðasta skiptið sem við spiluðum öll saman“

\"\"Einar Bragi Bragason fæddist 11. ágúst 1965 í Reykjavík. Hann lést 4. október 2019. Einar Bragi var afkastamikill tónlistarmaður og eftir hann liggur fjöldi lagasmíða og útsetninga. Einar Bragi verður jarðsunginn í dag. Frá því er greint í Morgunblaðinu. Þar er einnig að finna minningargrein frá vinum hans í hljómsveitinni, Stjórninni. Í Morgunblaðinu segir um Einar:

Einar Bragi gaf út tvær sólóplötur og var með þá þriðju í vinnslu, en af henni hafa nokkur lög nú þegar verið gefin út.

Einar Bragi spilaði inn á yfir hundrað platna fyrir fjölda annarra tónlistarmanna sem og hljómsveita. Hann tók tvisvar sinnum þátt fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Fyrst árið 1990 með lagið „Eitt lag enn“ í flutningi Stjórnarinnar og síðan árið 1993 með lagið „Þá veistu svarið“ ásamt Ingibjörgu Stefánsdóttur.

Einar var í miklu samstarfi við aðra hljómlistarmenn búsetta erlendis, meðal annars lék hann á djasshátíðinni Sortland Jazzfestival í Norður noregi nokkrum sinnum og myndaðist við það ævarandi vinskapur og samstarf milli hans og annarra tónlistarmanna sem sóttu hátíðina. Einar Bragi var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 1993 fyrir saxófónleik. Einar var einnig valinn Austfirðingur ársins árið 2008.

\"\"

Stjórnin, sem Einar Bragi tók þátt í að stofna, skrifa minningargrein um Einar Braga. Þar segir:

Í dag kveðjum við góðan vin og samstarfsmann, Einar Braga Bragason, sem lést aðeins 54 ára að aldri.

Einar Bragi var einn af stofnendum Stjórnarinnar og átti svo sannarlega sinn þátt í velgengni hljómsveitarinnar og vinsældum.

Strax á unglingsárunum kom í ljós hversu flinkur hann var á saxófóninn, enda leið ekki á löngu þar til hann var orðinn einn af eftirsóttustu hljóðfæraleikurum landsins. Hann var fagmaður fram í fingurgóma, vandvirkur og mætti ávallt einstaklega vel undirbúinn, hvort sem var á æfingar, í hljóðver eða á tónleika.

Hann hafði mikla ástríðu fyrir starfinu og lagði sig allan fram. Á fyrstu starfsárum hljómsveitarinnar var álagið oft mikið. Við spiluðum allar helgar yfir vetrartímann og á sumrin ferðuðumst við um landið þvert og endilangt og spiluðum á sveitaböllum. Á þessum ferðalögum var ýmislegt brallað og mikið hlegið.

Einar Bragi gaf þar mikið af sér, enda mikill fjörkálfur og húmoristi. Hann átti það til að vera stríðinn, en þó aldrei þannig að særði heldur bara til að létta stemninguna. Ef draga ætti fram eitt helsta persónueinkenni Einars Braga væri það tryggð við vini og vandamenn.

Hann var traustur vinur og duglegur að halda sambandi. Í lífi Einars Braga skiptust á skin og skúrir. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með honum undanfarin ár.

Hann blómstraði í starfi sínu sem skólastjóri Tónlistarskóla Vesturbyggðar og var hamingjusamur í sínu einkalífi. Þau Hafdís Rut höfðu eignast fallegt hús á Patreksfirði með útsýni yfir hafið. Einar Bragi þreyttist ekki á að birta myndir af litadýrð himinsins við sólarupprás og sólarlag yfir firðinum. Þá duldist engum hve stoltur hann var af börnunum sínum og hve heitt hann unni Hafdísi.

Við vorum svo lánsöm að eiga dýrmætar stundir með Einari Braga í fyrra þegar Stjórnin fagnaði 30 ára afmæli.

Ekki óraði okkur fyrir að þetta yrði síðasta skiptið sem við spiluðum öll saman. Þetta eru dýrmætar minningar en jafnframt áminning um að njóta hvers dags og alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Við þökkum Einari Braga samfylgdina um leið og við sendum fjölskyldu hans og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.