Stjórnarskránni líklega ekki breytt

Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur og fulltrúi Pírata í stjórnarskrárnefnd Alþingis og Birgir Ármannsson, þingmaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokkinn eru gestir á Hringbraut í kvöld. Birgir sagði hverfandi líkur á því að frumvarp um breytingar á stjórnarskránni færi í gegnum þingið fyrir kosningar. Forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson hefur nú lagt fram þingmannafrumvarp sem er niðurstaða þverpólitískrar nefndar um breytingar á stjórnarskránni. Mælt verður fyrir frumvarpinu á fimmtudag.

Aðalheiður sagði afleitt að ekki væri gert ráð fyrir því að þjóðin kysi um þessar tillögur heldur eingöngu þingið. Hún sagðist vona að þessar tillögur yrðu samþykktar þótt þær væru langt frá því að vera allt það sem stjórnlagaráð lagði til á sínum tíma. Þetta væri mikilvægt skref í átt að breytingum sem í mörg ár hafa verið ræddar.

Í frumvarpinu má sjá að nefndinni var falið að leggja til breytingar á stjórnarskránni. Í því stendur að stefnt var að því að vinnu nefndarinnar lyki tímanlega svo að hægt væri að samþykkja frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili.

 Breytingarnar varða þrennt: Umhverfisvernd, náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslur.