Stjórn landverndar fagnar ákvörðun hvals hf um engar veiðar í ár

Stjórn Landverndar fagnar ákvörðun Hvals hf. um að veiða enga hvali í ár.  Sú ákvörðun er í samræmi við ályktun aðalfundar Landverndar 2019 sem hvatti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að vinna að því að hvalveiðum við Ísland verði hætt. Stjórn Landverndar telur rétt að nýta það hlé sem er á hvalveiðum í ár til þess að undirbúa algjört bann við hvalveiðum við Ísland.

“Ekki hefur verið gerð viðunandi úttekt á efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum forsendum hvalveiða á Íslandi, það er, á raunverulegri sjálfbærni veiðanna.  Ekki eru opnir markaðir fyrir hvalkjöt í heiminum og óvissa ríkir um áhrif hvalveiða á starfssemi hvalaskoðunarfyrirtækja og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu.  Kolefnisspor hvalveiða er töluvert auk þess sem hvalir eru mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar.  Áhrif af hvalveiðum á alþjóðasamstarf og ímynd Íslendinga geta verið mjög skaðleg. Hvalveiðar eru ósjálfbærar og þeim ber að hætta þegar í stað. Þá eru vinnubrögð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við reglugerðarbreytingar um hvalveiðar og útgáfu leyfa til hvalveiða ekki í takt við góða, skilvirka, opna og nútímalega stjórnsýslu, “ segir stjórn Landverndar í tilkynningu sinni.