Stephen Hawking er látinn

Einn meerkasti vísindamaður samtímans kveður:

Stephen Hawking er látinn

Breski vísindamaðurinn Stephen Hawking er látinn, 76 ára að aldri. AFP fréttastofan hefur þetta eftir fjölskyldu Hawkings. Hann lagði stund á kennilega eðlisfræði og stjörnufræði og var margverðlaunaður fyrir störf sín.
 
Í samantekt RÚV í morgun um þenna merka vísindamanna segir að Hawking hafi verið uppruni og formgerð alheimsins hugleikin og hafi hann helgað því störfum sínum. Hann skilji eftir sig fjölda rita um alheiminn og hann hafi verið duglegur að deila kenningum sínum á ýmis konar ráðstefnum.
 

Hawking fæddist 8. janúar 1942, sléttum 300 árum eftir lát Galíleó Galeílei, sem jafnan er talinn faðir nútímavísinda. Hawking taldi því köllun sína að nema vísindi. Meirihluta ævi sinnar varði Hawking í hjólastól, og tjáði hann sig að mestu í gegnum talgervil. Hann fór að finna fyrir óþægindum um tvítugt, og var svo greindur með Lou Gehrig's sjúkdóminn 21 árs gamall. Sjúkdómurinn ræðst á mænuna og veldur lömun. Læknar gáfu honum tveggja ára lífslíkur eftir greininguna. Hann skrifaði eitt sinn að hann væri oft spurður að því hvernig honum þætti að vera með sjúkdóminn. Hann sagðist ekki velta því mikið fyrir sér, hann reyndi að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er.

Skert hreyfi- og málgeta hafði lítil áhrif á hugsun og þekkingu Hawkings. Hugðarefni hans voru alheimurinn, hvernig og úr hverju hann væri gerður og hvernig endalok hans gætu orðið. Hann sagði markmið sitt einfalt, að öðlast fullan skilning á alheiminum. Af hverju hann er eins og hann er og hvers vegna hann er til. Rannsóknir og störf Hawkings snerust að mestu um tíma og rúm og skammtafræði, það er hvernig minnstu eindir alheimsins haga sér. 

Hawking var hugleikið að koma hugmyndum sínum á framfæri út fyrir fræðasamfélagið. Þannig gaf hann út bókina A Brief History of Time árið 1988, þar sem hann leitast eftir því að útskýra kenningar sínar um alheiminn fyrir ólærðum. Bókin seldist gríðarlega vel um allan heim. Hann fylgdi henni loks eftir árið 2001 með bókinni The Universe in a Nutshell. Þá gaf hann út barnabók í samstarfi við dóttur sína, Lucy, árið 2007. Þar útskýrir hann virkni sólkerfisins, loftsteina, svarthola og fleiri hluta í alheiminum, segir í samantektinni.

Nýjast