Steingrímur: „ég gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana“

„Ég sá ekki ástæðu til þess að láta þennan fund standa langt inn í kvöldið og nóttina. Miðflokksmenn eru bara á sama stað í sínu málþófi svo ég ákvað að senda bara menn heim að sofa og við sjáum hvernig þeir sofa í nótt og hvernig þeir hugsa.“

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við Fréttablaðið, um ástæðu þess að umræðu um þriðja orkupakkann var frestað á þingi í gærkvöldi klukkan 19:45. Umræðan hafði þá staðið yfir í fjórar klukkustundir og var sem fyrr einokuð af þingmönnum Miðflokksins, þó Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hafi einnig kveðið sér hljóðs um nokkra stund.

Fyrir utan þriðja orkupakkann eru ennþá 33 önnur mál á dagskrá þingsins sem á eftir að afgreiða. Steingrímur segist því ekki sjá fyrir endann á þinghaldi í bráð.

Hann segir þó ekki annað koma til greina en að klára þau mál sem fyrir liggi. „Ég gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana með það að Alþingi muni skila almennilegu verki í lok þessa þings og að við náum að skila í hús öllu því verki sem hefur verið unnið hér í vetur.“ Mál verði ekki látin standa eftir ókláruð. „Fyrr fundar þingið langt, langt inn í sumarið“, segir Steingrímur.