Harkalegt bréf stefáns til vigdísar

Stefán Eiríksson, borgarritari, sendi Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, tölvupóst þann 10. ágúst vegna færslu sem birtist á Facebook-síðu Vigdísar um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Í bréfinu gagnrýndi Stefán borgarfulltrúann harðlega. Vigdís segist hafa verið mjög slegin yfir tölvuskeytinu. Fréttastofa RÚV hefur bréfið undir höndum en það var lagt fram á miklum hitafundi í borgarráði í morgun.  
 

Héraðsdómur felldi þá í byrjun síðasta mánaðar úr gildi áminningu sem Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, veitti undirmanni sínum. Bæði Stefán og Helga Björg hafa vísað því á bug  að dómurinn hafi snúist um einelti, heldur hafi þarna verið tekist á um stjórnvaldsákvörðun.

Í bréfi segir Stefán að hann hafi á fundi borgarráðs upplýst í trúnaði um það sem gerst hafi eftir að málið var flutt í héraðsdómi. „Þessar upplýsingar eru ekki opinberar upplýsingar og hvorki Reykjavíkurborg né einstaka borgarfulltrúum er heimilt að greina frá því opinberalega eins og farið var yfir á fundinum.“ Það að starfsmaður hafi óskað eftir því að fram færi rannsókn á einelti hafi verið upplýsingar sem Reykjavíkurborg sé lögum samkvæmt óheimilt að greina frá opinberlega. 

Fjallað er um málið á vef Rúv