Starkaður 11 ára skammar hina fullorðnu og spyr hvort við lærum aldrei neitt: „mörgum hinna fullorðnu er eiginlega bara alveg sama!“

„Kæru fullorðnu Íslendingar. [...] Staðan er ekki góð. En það versta er að mörgum hinna fullorðnu er eiginlega bara alveg sama!“

Þetta segir Starkaður Björnsson 11 ára nemandi við Brekkuskóla á Akureyri í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Þar beinir hann orðum sínum til hinna fullorðnu. Segir Starkaður að mikilvægt sé að Íslendingar taki sig á í umferfismálum. Hann telur að Íslendingar séu að mörgu leyti umhverfissóðar í alþjóðlegum samanburði. Starkaður vitnar í vísindamenn sem hafa gefið okkur um 13 ár til að bregðast róttækt við áður en það sé um seinan.

„Þegar maður horfir á fréttir og hlustar á stjórnmálamenn og eigendur stórfyrirtækja, þá spyr maður: Lærum við aldrei neitt? [...]Þegar við skoðum okkar eigið land, Ísland, er um við að mörgu leyti algjörir umhverfissóðar í alþjóðlegum samanburði.  Til dæmis hvað við urðum mikið af sorpi. Engan tíma má missa.“

Starkaður segir hamfarahlýnun yfirvofandi. Þá segir Starkaður í grein sinni sem lesa má í heild í Morgunblaðinu:

„Ég heiti Starkaður, ég er 11 ára gamall og bý í brothættum heimi.

Ég vil að mín kynslóð fái eitthvað annað en ógreidda umhverfisreikninga beint framan í trýnið á okkur.

Ég vil að við aukum umhverfisverndarkröfur í átt að sjálfbærni, ég vil hvetja krakka sem og fullorðna til að minnka plast- og bensín/dísilnotkun til dæmis. Endurnýta meira og nota hlutina okkar betur.

Mér finnst að allt einnota plast ætti að vera algjörlega bannað (nema undir mjög sérstökum kringumstæðum).

Við viljum nota vélar áfram til að létta okkur lífið eins og í upphafi iðnbyltingarinnar en það sem þarf að breytast er að orka vélanna verði umhverfisvæn í stað þess að stúta okkur öllum um síðir.

Höfin eru að súrna, lífríkið hopar á hverjum degi, jöklarnir bráðna, lönd munu sökkva, veðrabreytingar verða æ hömlulausari og valda meiri og meiri skaða en á sama tíma standa fullorðnir og segja: Þetta er ekki mitt mál, þetta reddast!

Allir eiga rétt á góðri og heilnæmri framtíð. Við viljum ekki framtíðina sem fullorðið fólk hefur að óbreyttu upp á að bjóða. Ég held að ég tali fyrir alla jafnaldra mína þegar ég óska eftir réttlæti okkur til handa.

Þetta reddast nefnilega ekki af sjálfu sér. Ekki nema með róttækum breytingum.

Þær byrja innra með okkur og við krakkarnir þurfum rödd til að orð okkar heyrist.“