Starfsmenn fá 105.000 krónur 1. ágúst

Borgarráð hefur samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun 2019 vegna eingreiðslu til starfsfólks borgarinnar sem verið hefur með lausa kjarasamninga síðan í vor. Eingreiðslan verður innt af hendi þann 1. ágúst næstkomandi og er hún tilkomin vegna tafa á viðræðum um nýja kjarasamninga. Þetta kemur fram í tilkyningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir ennfremur að greiðslan er samkvæmt samkomulagi um endurskoðaða viðræðuáætlun sem aðilar komu sér saman um í lok júní um að innágreiðsla að upphæð 105.000 kr. verði greidd hverjum starfsmanni miðað við fullt starf.

Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Greiðslan kemur til útborgunar 1. ágúst 2019.  Jafnframt gerir endurskoðuð viðræðuáætlun ráð fyrir að samningar liggi fyrir í lok september.