Stærsti samningur í sögu esb

Æðstu embættismenn Evrópusambandsins undirrita fríverslunarsamning við Japan sem er sagður sá stærsti í sögu sambandsins. Þeir segja mikilvægt að styðja við frjáls milliríkjaviðskipti, verndartollar og viðskiptastríð séu engum til hagsbóta.
 
 

Donald Tusk forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, funduðu um viðskipti með kínverskum yfirvöldum í Bejing í gær áður en þeir héldu til Japan.

Þar sagði Tusk að það væri sameiginleg ábyrgð Evrópu og Kína, sem og Bandaríkjanna og Rússlands, að eyðileggja ekki hið alþjóðlega viðskiptakerfi heldur bæta það.

„Viðskiptastríð hafa svo oft þróast yfir í raunveruleg stríð í sögu okkar,“ sagði Tusk en Donald Trump hefur hafið viðskiptastríð við Kína og lagt verndartolla á ýmsar vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna. „Það er enn hægt að koma í veg fyrir átök og ringulreið,“ sagði hann enn fremur.

Stærsti samningur í sögu ESB

Viðskiptasamningurinn við Japan, sem samþykktur var í desember á síðasta ári, er að sögn Margaritis Schinas talsmanns framkvæmdastjórnar ESB „sá stærsti sem Evrópusambandið hefur samið um“.

Með samningnum er komið á fót fríverslunarsvæði sem nær til eins þriðja af landsframleiðslu heimsins. Með þessu vill ESB treysta tengslin við einn stærsta efnahagi heims og „senda sterk skilaboð til heimsins“ að sögn Ceciliu Malmstrom viðskiptastjóra sambandsins.

Samningurinn felur einnig í sér að ESB mun opna markað sinn, þann stærst í heimi, fyrir japönskum bílaframleiðendum. Í staðinn mun Japan fella niður tolla á evrópska landbúnaðarframleiðslu, einkum mjólkurvörur.

Samstaða gegn Bandaríkjunum

ESB og Japan vilja auk sýna samstöðu gagnvart Bandaríkjunum þegar kemur að tollum vestanhafs á stál og ál. Japönsk stjórnvöld hafa kallað tollana „óverjandi“.

Með samningum vonast ESB til að fá meiri hlutdeild á markaði eins ríkasta lands heims. Japönsk stjórnvöld vilja koma efnahag landsins í gang en hagvöxtur þar hefur verið lítill undanfarinn ár.

Til stóð að forsætisráðherra Japan Shinzo Abe undirritaði samninginn í Brussel í síðustu viku en hann hætti við ferð sína til Evrópu vegna mannskæðra flóða sem kostað hafa meira en 220 manns lífið í landinu.