Stærsti eigandi Kea hótela segir engar viðræður í gangi við WOW

Stærsti eigandi Kea hótela segir engar viðræður í gangi við WOW

Hugh Short, stofnandi og forstjóri fjárfestingafélagsins Pt. Capital, sem á 75 prósent hlut í Kea hótelum, segir félagið ekki í viðræðum um að taka þátt í endurreisn WOW air. Viðskiptablaðið greinir frá.

Um helgina var greint frá því að fulltrúar Pt. Capital, sem á einnig helmings hlut í Nova, hafi fundað með Skúla Mogensen um stofnun nýs flugfélags.

Short hafði áður tjáð sig um fall WOW air í mars, þar sem hann lýsti yfir undrun sinni á því að íslenska ríkið hefði ekki gripið inn í og bjargað flugfélaginu. Hann telur að fall Wow muni hafa áhrif víða í ferðaþjónustunni en svo muni þeirra fara að gæta á öðrum mörkuðum á við verslun, bílasölu og fasteignum.

WOW fór sem kunnugt í þrot fimmtudaginn 28. mars. Strax miðvikudaginn á eftir, 3. apríl, var Skúli Mogensen og nokkrir fyrrverandi lykilstarfsmenn WOW búnir að setja upp nýja viðskiptaáætlun um nýtt flugfélag, sem myndi hafa heimahöfn hér á landi. Því leituðu þeir 40 milljóna bandaríkjadala hjá fjárfestum, eða tæpra fimm milljarða króna, gegn 49 prósenta hlut í nýja flugfélaginu.

Nýjast