Stærsta spurningin í íslenskri pólitík

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri og dagskrárstjóri Hringbrautar skrifar:

Stærsta spurningin í íslenskri pólitík

Stærsta spurningin í íslenskri pólitík er sú hvort samfélagið hafi efni á þróttmikilli heilbrigðisþjónustu sem er í boði fyrir alla landsmenn, án tillits til efnahags og búsetu. Annað skiptir minna máli, þar á meðal menntun og samgöngur, þeir veigamiklu málaflokkar, því það er svo að í öllu venjulegu samneyti manna skiptir mestu að hjálpa veiku fólki. Þar er kominn grunnskilningurinn á mannlegu eðli.

Pólitík snýst ekki um marga hluti. Í aðalatriðum snýst hún um eitt, forgangsröðun. Og hún er ekki merkilegri en svo að heimfæra má hana á rekstur venjulegs heimilis. Og það er einmitt í fjölskyldulífinu sem áherslan á menneskjuna verður svo sjálfsögð að varla þarf að hafa orð á því. Ef einhver veikist hastarlega innan veggja íbúðarinnar leggjast allir á eitt í samtakamætti - og öllu öðru er vikið til hliðar.

Tíu árum eftir efnahagshrun reynir á stjórnvöld og raunar samfélagið allt. Viljum við hjálpa veiku fólk? Það merkilega við þessa spurningu er að þjóðin hefur svarað henni svo ótal oft; hugur hennar er hjá þjóðarspítala landsmanna, níu af hverjum tíu landsmönnum vilja stórbæta hag hans og létta undir með starfsfólkinu, svo sjúku fólki líði betur. Af hverju í ósköpunum skilur íslensk pólitík það ekki?    

Nýjast