Spyrja hvar eigi að skera niður

Ekki er til nægt fé til að reka hjúkrunarrými landsins við óbreyttar aðstæður án viðbótar fjármagns sem ekki er þó að finna í fjárlagafrumvarpinu, segir Pétur Magnússon, stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag-og upplýsingasviði hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samtalið við Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld.

Breytt hjúkrunarheimili

Veruleikinn er breyttur frá því sem var ef litið er til þess að geðhjúkrunarrýmum hefur til dæmis fjölgað og eldra fólk kemur inn á heimilið verra á sig komið en áður, að sögn Péturs. Samkvæmt tölum Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) þá eru 139 einstaklingar yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum, 62 í sérstökum rýmum og 77 einstaklingar á landsvísu sem búa í almennum hjúkrunarrýmum um landið. Pétur segir reyndar þennan yngri hóp fjölmennari en þessar tölur segi til um.

Kostnaður við þjónustuna ekki greindur

2700 hjúkrunarrými eru á landinu öllu og stjórnvöld kostnaðargreina ekki þjónustuna nema takmarkað líkt og kemur fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem kom út í byrjun árs. Þar stóð til dæmis: „Dæmi eru um að samningar Sjúkratryggina hafi ekki stuðst við fullnægjandi greiningar á þörfum, kostnaður og ábata. Þá hafa verið gerðir samningar sem kveða ekki nægilega skýrt á um skilgreint magn, gæði eða jafnt aðgengi landsmanna“

Enn fremur segir Ríkisendurskoðun í sömu úttekt: „Að mati Ríkisendurskoðunar má draga í efa að víðtækir rammasamningar stuðli að markvissum og hagkvæmum kaupum á heilbrigðisþjónustu. Efast má um að samningarnar séu í öllum tilvikum hagkvæmir og stuðli að aukinni skilvirkni heilbrigðiskerfisins í heild“.

Langstærsti samningur SÍ

Samningur SÍ við hjúkrunarheimili landsins er langstærsti samningurinn sem gerður er af hálfu SÍ sem í langflestum tilfellum kaupa þjónustuna af sjálfseignarstofnunum en ríkið rekur sjálft minnihlutann.

Vilja að stjórnvöld leggi til niðurskurðinn

Samninganefndir Samtakanna og Sambandsins sendu frá sé yfirlýsingu fyrir helgi þar sem þau krefja SÍ um að leggja til hvar skera eigi niður í þjónustunni. Það sé stjórnvala að ákveða hvaða þjónustu á aðskerða í ljósi þess að nýjar skyldur eru lagðar á hjúkrunarheimilin með nýjum lögum. Það er meðal annars aukin krafa um persónuvernd, eitthvað sem mun kalla á nýtt starfsgildi hjá hjúkrunarheimilum.

Valgerður segir að samninganefndirnar hafi fengið afsvar um að fá fund með heilbrigðisráðherra og þau svör fáist að samningaviðræður standi enn yfir. Valgerður segir í raun málið stopp í viðræðunum þar sem augljóst sé að nýjar skyldur kalli á aukið fé. Því breyti ekkert, nema þjónustan verði skorin niður um landið og stjórnvöld verði að benda á hvar á þá að bera niður.

Málið varðar ekki síst Landsspítalann en þar liggja mjög margir eldri einstaklingar inni lengi sem hægt var að útskrifa fyrir löngu en fá ekki pláss á hjúkrunarheimili.